Eltihrellar geta átt von á allt að fjögurra ára fangelsi, verði frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að veruleika. Til stendur að bæta við ákvæði inn í hegningarlög um umsáturseinelti.

Samkvæmt skilgreiningu er eltihrellir hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða situr um, annan mann. Sé háttsemin til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða.

Í langflestum tilvikum verða konur fyrir barðinu á eltihrellum, sem gjarnan eru fyrrverandi makar eða kærastar. Um 65 konur sem leituðu til Kvennaathvarfsins í fyrra sögðust hafa orðið fyrir umsáturs­einelti, eða 16 prósent af þeim sem leituðu til athvarfsins. Í einstaka tilfellum er um að ræða menn sem konurnar þekktu mjög lítið.

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri segir eltihrella bæði nýta stafrænar og veraldlegar leiðir. Meðal annars endalausar skilaboðasendingar og tölvupósta. „Ágangur getur verið mikill á heimili kvennanna og stundum vinnustað þeirra,“ segir hún. „Þá reyna þeir einnig að mynda tengsl við fjölskyldumeðlimi, vinnufélaga og aðra sem tengjast þolandanum og dreifa ljótum sögum.“

Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Kvennaathvarfsins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Upp hafa komið tilfelli þar sem þolendur missi atvinnuna eða flýi af heimili sínum í annað bæjarfélag eða jafnvel til útlanda. Andlega ógnin sé mikil og öryggisleysið þrúgandi. Að þurfa að lifa við það að gerandinn gæti dúkkað upp á hvaða tíma sem er og hvar sem er. Þetta álag sé einnig lagt á börnin og aðstandendur.

„Þeir sitja stundum fyrir þeim fyrir utan leikskólana og kaffæra þau með nærveru sinni,“ segir Sigþrúður. „Það hljómar kannski saklaust að fá skilaboð af og til, eða sjá viðkomandi nokkrum sinnum. En þetta er gert í þeim tilgangi að skapa ógn, oft eftir ofbeldissamband. Viðveran er áminning um það hvað hann getur gert til að halda völdum yfir huga konunnar.“

Lengi hefur verið kallað eftir ákvæðum um umsáturseinelti, því með núverandi löggjöf hefur lögreglan takmarkaða getu til að fást við mál af þessu tagi. Erfitt geti verið að fá nálgunarbann og það í sjálfu sér ekki refsing heldur þvingunaraðgerð og sé ekki endilega framfylgt.

„Það þarf mikið að ganga á til að nálgunarbann sé veitt, sönnunarbyrðin er erfið og ekki tekið tillit til þess að þolandinn fái að ráða hverjir séu í lífi hans og hverjir ekki,“ segir Sigþrúður.

Sigþrúður segir ýmislegt geta valdið því að ofbeldið stoppi, til dæmis að gerandinn finni nýja kærustu. Stundum komi þó til þess að hann virki hana í að hrella sína fyrrverandi.