Joe Biden Banda­ríkja­for­seti segir ríkis­stjórn sína vera ná­lægt því að komast að sam­komu­lagi við tvo bólu­efna­fram­leið­endur sem myndi gera það að verkum að hægt væri að bólu­setja allt að 300 milljónir Banda­ríkja­manna fyrir lok sumars.

Þá svaraði Biden á­kalli ríkis­stjóra um dreifingar­á­ætlun en áður fengu ríkin mjög skamman fyrir­vara um hversu margir skammtar voru væntan­legir. „Líf eru í húfi hérna,“ sagði Biden og bætti við að það væri ó­á­sættan­legt að ríkin væru í ó­vissu með bólu­efni.

Hvert ríki fyrir sig mun nú fá þriggja vikna fyrir­vara um hversu margir skammtar berast að hverju sinni. Ríkis­stjórarnir tóku þó fréttunum með fyrir­vara þar sem bólu­efni er víða af skornum skammti vegna fram­leiðsluta­fa og ó­ljóst er hvernig fram­leið­endum tekst að anna eftir­spurn.

47 prósent vilji bólusetningu sem fyrst

Banda­ríska lyfja­eftir­litið hefur þegar veitt neyðar­heimild fyrir notkun á tveimur bólu­efnum í Banda­ríkjunum, annars vegar bólu­efni Pfizer og BioN­Tech, og hins vegar bólu­efni Moderna. Hingað til hafa Banda­ríkin tryggt sér skammta sem duga fyrir 200 milljónir manna.

Ný rann­sókn Kaiser fjöl­skyldu­stofnunarinnar bendir til að fleiri séu nú opnari fyrir því að vera bólu­settir gegn CO­VID-19 en fjöl­margir höfðu áður mót­mælt bólu­setningunni. Sam­kvæmt rann­sókninni vilja 47 prósent vera bólu­settir sem fyrst, miðað við 34 prósent í fyrri könnun.

Aftur á móti vildu 31 prósent bíða og sjá hvernig bólu­setningin þróast og sjö prósent sögðust að­eins ætla að fara í bólu­setningu ef það yrði krafa fyrir vinnu eða skóla. Þá sögðust þrettán prósent vera hand­viss um að þau myndu ekki fara í bólu­setningu.

23,5 milljón skammtar af bóluefni gefnir

Eins og staðan er í dag hafa rúm­lega 23,5 milljón skammtar af bólu­efni verið gefnir í Banda­ríkjunum sam­kvæmt upp­lýsingum á heima­síðu Smit­sjúk­dóma­stofnunar Banda­ríkjanna en um 260 milljónir full­orðnir Banda­ríkja­menn koma til greina fyrir bólu­setningu.

Banda­ríkin eru með lang­flest stað­fest til­felli kóróna­veiru­smits á heims­vísu en rúm­lega 25,4 milljónir manna hafa greinst með veiruna þar í landi og rúm­lega 425 þúsund látist eftir að hafa smitast. Til saman­burðar hafa rúm­lega 100 milljónir smitast á heims­vísu og rúm­lega 2,16 milljónir látist.

Eftir aðeins viku í embætti sem forseti Bandaríkjanna hefur Joe Biden þurft að taka ýmsar ákvarðanir þegar kemur að faraldrinum í Bandaríkjunum. Hann hefur nú sett sér háleit markmið til að ná stjórn á COVID-19 og lagt til ýmsar takmarkanir.

Misjafnt er eftir ríkjum hversu strangar samkomutakmarkanir eru í gildi en allir Bandaríkjamenn hafa þó verið hvattir til að ferðast sem minnst í ljósi nýrra takmarkana á ferðalög. Samkvæmt nýju reglunum þurfa allir að sýna fram á neikvætt COVID-19 próf áður en haldið er til Bandaríkjanna.