Einar Þor­steins­son, for­maður borgar­ráðs, segir að bráða­birgða­til­lögur til þess að fjölga leik­skóla­plássum á vegum borgarinnar, verði kynntar næsta fimmtu­dag. Hann segir ekki ljóst hve mörg börn muni geta fengið pláss. Einar var gestur á Frétta­vaktinni og má horfa á við­talið neðst í fréttinni.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá efndu for­eldrar í Reykja­vík til mót­mæla síðasta fimmtu­dag vegna úr­ræða­leysis í mál­efnum barna sem bíða eftir að komast inn á leik­skóla í borginni.

„Nú er stjórn­sýslan bara að hlaupa hratt. Þegar þessi staða fór að teiknast upp núna fyrir skömmu þá var það ein­dreginn vilji þeirra sem ráða hér í borginni núna að reyna að grípa til skamm­tíma­lausna til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin,“ segir Einar.

Hann segir sviðs­stjóra skóla-og frí­stunda­sviðs hafa mætt til fundar við borgar­ráð og veitt upp­lýsingar um vandann og hversu mörgum börnum vantar pláss. Þeim gögnum hafi verið safnað í síðustu viku hjá skólunum. Hann segir vinnu hafna við að móta til­lögur að lausnum.

„Sem væru þá til bráða­birgða til þess að koma eins mörgum börnum inn á leik­skóla strax í haust. Af því að við áttum okkur á því að þetta er vandi sem er mjög brýnn og það er vont fyrir for­eldra sem höfðu gert ráð­stafanir og höfðu væntingar um að komast inn á leik­skóla með börnin sín núna í septem­ber að það sé ekki staðið við það.“

Núverandi plan ágætt

Að­spurður að því hvort stjórn­mála­menn í borginni hafi misst sig í kosninga­lof­orðum um lausnir gegn vandanum, segir Einar að sér þyki nú­verandi plan um að fjölga plássum, sem ber heitið Brúum bilið, á­gætt.

„Á­formin hafa verið metnaðar­full. Þetta eru mjög mörg leik­skóla­pláss sem verið er að reyna að koma á fót. 2000 pláss á fáum árum sem kallar á mikla upp­byggingu og mikla fjár­muni og í sjálfu sér held ég að planið sé á­gætt.“

Einar segir ljóst að það taki langan tíma að byggja venju­legan leik­skóla og því hafi verið gripið til þess ráðs að byggja svo­kallaðar ævin­týra­borgir, sem taki styttri tíma að byggja.

En ævin­týra­borgirnar, alla­vega við Naut­hóls­veg, hún er ekki til­búin?

„Nei, en ég held að þetta plan sem er í gangi, sem ég náttúru­lega kom ekkert að, af því að við erum ný­komin að málum hér í borginni, mér sýnist það vera skyn­sam­legasta planið,“ segir Einar.

„Hins­vegar er ýmis­legt sem hefur tafið þessar fram­kvæmdir og það þekkja em­bættis­mennirnir betur en ég í hið minnsta, maður er svona hægt og ró­lega að fá skýringar á því hvað fór úr­skeiðis, en það er mjög vont að þessi á­form hafi tafist og nú er bara verið að reyna að vinna að lausnum til þess að koma þessu í gang.“

Hann segir að­spurður til­lögu­pakka verða kynntan á fundi borgar­ráðs á fimmtu­dag.

„Það er planið. Þetta eru mörg börn sem þarf að koma fyrir á leik­skóla og ég veit ekki hvort það verði hægt að koma þeim öllum en það er sannar­lega verið að vinna mjög hörðum höndum að því núna að draga upp ein­hverja mynd svo það sé hægt að taka þessi börn sem hafa beðið lengst strax inn í haust. Það er verið að vinna að þessu og við komum með ein­hverjar til­lögur í vikunni.

Þú veist ekki hversu mörg börn þið gætuð búið til rými fyrir?

„Nei en það er verið að vinna mjög hörðum höndum að þessu.“