Uppljóstrunarvettvangurinn Wikileaks birti í gærkvöldi rúmlega 30 þúsund skjöl í tengslum við mál Samherja sem Kveikur á RÚV og Stundin fjölluðu um í gær og í dag.

Í skjölunum fá finna tölvupóst, skýrslur innan fyrirtækisins, töflur, kynningar og ljósmyndir. Wikileaks ætla sér að birta fleiri skjöl síðar, sennilega eftir tvær til þrjár vikur, eftir að fréttaveitan Al-Jazeera hefur birt umfjallanir sínar um umrædd gögn.

Skjölin eru frá árunum 2010 til 2016 en Jóhannes Stefánsson, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri og stjórn­ar­maður Sam­herja­fé­lag­anna í Namib­íu, veitti Wikileaks aðgang að þeim. Jóhannes var einn helsti viðmælandinn í þætti Kveiks sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi.

Í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar, sem gerð var í samvinnu við Al Jazeera, er haldið fram að útgerðin Samherji hafi mútað ráðamönnum í Namibíu til að verða sér um gríðarlega mikinn kvóta. Einnig hafi útgerðin beitt ólögmætum aðgerðum til að komast hjá því að greiða skatta, meðal annars í gegnum skattaskjól í Máritaníu og Kýpur.

Jóhannes tók ákvörðun um að gerast uppljóstrari um spillta og mögulega ólöglega starfshætti Samherja í landinu af því hann vill opinbera spillinguna þar í landi.

Hver sem er getur nú nálgast skjölin sem voru til umfjöllunar í þætti Kveiks og Stundarinnar en Wikileaks hefur sett á laggirnar leitarvef. Þess má geta að leitarhnappurinn í Fiskirot skjölunum sýnir mynd af veiðistöng.