Opnað hefur verið fyrir almenning að gosstöðvum í Meradölum í dag.

Lokað var fyrir almenning að gosstöðvum í gær og þar til í morgun vegna veðurs og slæmrar færðar.

Viðbragðsaðilar funduðu nú rétt í þessu og tóku ákvörðun um að opna fyrir umferð að gosinu.

Veðurspá dagsins er ágæt samkvæmt Veðurstofu Íslands en ferðalangar gætu átt von á rigningu og því mikilvægt að muna eftir regnjakkanum.

Rigning á suður- og suðausturlandi

Í dag má búast við austan og norðaustan átt fimm til þrettán metrum á sekúndu en norðlægari á Vesturlandi.

Rigning verður suðaustantil en annars víða skúrir. Hiti verður á bilinu sjö til fimmtán stig en reikna má með að svalast verði á Vestfjörðum.

Mundu eftir nestinu

Björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar hafa hvatt fólk til að mæta vel búið fyrir göngu að gosstöðvunum.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík, sagði í samtali við Fréttablaðið á mánudag að ferðalangar væru oft ekki nægilega vel búnir.

Sem dæmi hefði björgunarsveitarfólk þurft að gefa buguðum ferðamönnum nestið sitt. Fólk væri ekki að átta sig á orkuþörfinni á göngunni og mikilvægt væri að vera með gott nesti.