Nú geta allir lög­menn og aðrir aðilar dóms­mála sent öll skjöl raf­rænt til héraðs­dóms­tóla á Ís­landi. Hug­búnaðar­fyrir­tækið Justikal kynnti í dag nýja lausn sem hefur verið í þróun hjá þeim síðustu fjögur ár og sam­kvæmt til­kynningu frá fyrir­tækinu þá sam­þykkti Dóm­stóla­sýslan notkun lausnarinnar í héraðs­dóms­tólum fyrir stuttu eftir að hún hafði verið prófið í til­rauna­verk­efni með Lands­rétti og fimm stærstu lög­manns­stofum landsins

Lausnin, sem er að­gengi­leg á slóðinni www.justikal.is, er nýr val­kostur sem stendur lög­mönnum til boða við fram­lagningu skjala í héraðs­dómi. Þeir sem velja að senda gögn raf­rænt geta stofnað mál í Justikal en svo geta aðrir máls­aðilar, eins og lög­maður gagn­aðila og skjól­stæðingar, einnig lagt fram skjöl eða fengið les­að­gang til þess að fylgjast með fram­vindu sinna mála og fá sjálf­virkar til­kynningar þegar nýir at­burðir verða í dóms­málum sem tengjast þeim.

„Við leggjum mikla á­herslu á öryggi við með­ferð við­kvæmra skjala, þess vegna notum við raf­rænar traust­þjónustur í sam­ræmi við eIDAS reglu­gerðina til þess að tryggja að öll með­höndlun sé sem öruggust. Öll gögn eru til að mynda raf­rænt inn­sigluð með full­gildum tíma­stimpli sem stað­festir á­reiðan­lega hve­nær gögnin voru send. Þetta getur skipt lög­menn miklu máli þar sem tíma­frestur er mjög mikil­vægir og rík sönnunar­byrði er á lög­mönnum að hafa mætt tíma­fresti. Það má segja að lög­menn og aðrir séu ekki lengur bundnir við opnunar­tíma dóm­stólanna til að geta komið gögnum á fram­færi til þeirra innan tíma­frests," segir Margrét Anna Einars­dóttir, fram­kvæmdar­stjóri og stofnandi Justikal, í til­kynningu en hún starfaði fyrir tíma fé­lagsins sem lög­maður við hefð­bundin mál­flutning og kynnist af eigin reynslu starfs­háttum lög­manna.

Svona lítur kerfið út.
Mynd/Bent Marinósson

Hægt að stytta málsmeðferðartíma

Í til­kynningu segir að í dag leggi sí­fellt fleiri á­herslu á staf­ræna þjónustu og að þess vegna hafi fleiri fyrir­tæki lagt á­herslu á að inn­leiða raf­rænar undir­skriftir. Slík skjöl er ekki hægt að prenta út vegna þess að þá missir slík undir­skrift gildi sitt og þess vegna byggir Justikal á eIDAS vottuðum traust­þjónustum sem geta sann­reynt gildi raf­rænna undir­skrifta í sam­ræmi við lög nr. 55/2019 sem fjalla um raf­ræna auð­kenningu og traust­þjónustu fyrir raf­ræn við­skipti.

„Þetta er gríðar­lega mikil­vægt til þess að máls­með­ferð í dóms­málum sé í takt við þá staf­rænu þróun sem hefur átt sér stað. Núna með lögum nr. 55/2019 eru réttar­á­hrif raf­rænna skjala skil­greind sér­stak­lega. Með því að nýta þá tækni sem stendur lög­mönnum og dóm­stólum í dag til boða ætti að vera hægt að stytta máls­með­ferðar­tíma og fækka ó­þarfa frestum,” segir Margrét Anna.

Justikal fékk árin 2018 og 2021 styrk frá Tækni­þróunar­sjóð Ís­lands til þess að þróa lausnina sem nú er komin á markað. Justikal er ís­lenskt hug­vit og stefnir fé­lagið að koma lausninni á markað í Evrópu á næsta ári.