Nú geta allir lögmenn og aðrir aðilar dómsmála sent öll skjöl rafrænt til héraðsdómstóla á Íslandi. Hugbúnaðarfyrirtækið Justikal kynnti í dag nýja lausn sem hefur verið í þróun hjá þeim síðustu fjögur ár og samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu þá samþykkti Dómstólasýslan notkun lausnarinnar í héraðsdómstólum fyrir stuttu eftir að hún hafði verið prófið í tilraunaverkefni með Landsrétti og fimm stærstu lögmannsstofum landsins
Lausnin, sem er aðgengileg á slóðinni www.justikal.is, er nýr valkostur sem stendur lögmönnum til boða við framlagningu skjala í héraðsdómi. Þeir sem velja að senda gögn rafrænt geta stofnað mál í Justikal en svo geta aðrir málsaðilar, eins og lögmaður gagnaðila og skjólstæðingar, einnig lagt fram skjöl eða fengið lesaðgang til þess að fylgjast með framvindu sinna mála og fá sjálfvirkar tilkynningar þegar nýir atburðir verða í dómsmálum sem tengjast þeim.
„Við leggjum mikla áherslu á öryggi við meðferð viðkvæmra skjala, þess vegna notum við rafrænar traustþjónustur í samræmi við eIDAS reglugerðina til þess að tryggja að öll meðhöndlun sé sem öruggust. Öll gögn eru til að mynda rafrænt innsigluð með fullgildum tímastimpli sem staðfestir áreiðanlega hvenær gögnin voru send. Þetta getur skipt lögmenn miklu máli þar sem tímafrestur er mjög mikilvægir og rík sönnunarbyrði er á lögmönnum að hafa mætt tímafresti. Það má segja að lögmenn og aðrir séu ekki lengur bundnir við opnunartíma dómstólanna til að geta komið gögnum á framfæri til þeirra innan tímafrests," segir Margrét Anna Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri og stofnandi Justikal, í tilkynningu en hún starfaði fyrir tíma félagsins sem lögmaður við hefðbundin málflutning og kynnist af eigin reynslu starfsháttum lögmanna.

Hægt að stytta málsmeðferðartíma
Í tilkynningu segir að í dag leggi sífellt fleiri áherslu á stafræna þjónustu og að þess vegna hafi fleiri fyrirtæki lagt áherslu á að innleiða rafrænar undirskriftir. Slík skjöl er ekki hægt að prenta út vegna þess að þá missir slík undirskrift gildi sitt og þess vegna byggir Justikal á eIDAS vottuðum traustþjónustum sem geta sannreynt gildi rafrænna undirskrifta í samræmi við lög nr. 55/2019 sem fjalla um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
„Þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að málsmeðferð í dómsmálum sé í takt við þá stafrænu þróun sem hefur átt sér stað. Núna með lögum nr. 55/2019 eru réttaráhrif rafrænna skjala skilgreind sérstaklega. Með því að nýta þá tækni sem stendur lögmönnum og dómstólum í dag til boða ætti að vera hægt að stytta málsmeðferðartíma og fækka óþarfa frestum,” segir Margrét Anna.
Justikal fékk árin 2018 og 2021 styrk frá Tækniþróunarsjóð Íslands til þess að þróa lausnina sem nú er komin á markað. Justikal er íslenskt hugvit og stefnir félagið að koma lausninni á markað í Evrópu á næsta ári.