„Það er sama lægð sem er að valda vestan ó­veðrinu í nótt, og í gær, og er að valda norðanó­veðrinu á eftir. Eftir því sem hún færist austur eftir norður­ströndinni breytist vind­áttin,“ segir Ei­ríkur Örn Jóhannes­son veður­fræðingur á vakt hjá Veður­stofunni.

Hann segir að lægðin hafi skilað sér nokkuð eins, eins og spáð hafði verið um og að spár þeirra séu að ganga eftir. „Það var hvasst mjög víða, eigin­lega hvass­viðri eða stormur á öllu landinu, að slá í rok. Miðað við nýjustu spár er von á að þetta gangi eftir líka fyrir austan. Þar verður stormurinn,“ segir Ei­ríkur Örn en þar er nú í gildi appel­sínu­gul við­vörun, eins og á nær öllu suð­austan­verðu og norð­austan­verðu landinu en svo á há­degi tekur á Aust­fjörðum gildi rauð veður­við­vörun.

„Þar verður mjög slæmt og meðal­vind­hraði verður allt að 33 metrum á sekúndu, sem er orðið ofsa­veður. Það er orðið mjög, mjög hvasst.“

Allt sem getur fokið fýkur

Það er ekki fyrir fólk að fara út í?

„Nei, það er ekkert ferða­veður. Það verður bál­hvasst. En það er appel­sínu­gul við­vörun á Austur­landi og Suð­austur­landi og þær mega ekki gleymast þótt það sé rauð á Aust­fjörðum. Það verður líka mjög slæmt þar.“

Geturðu lýst því hvernig 33 metrar á sekúndu eru?

„Já, það er um það bil 120 kíló­metrar á klukku­stund og hviðurnar geta orðið um og yfir 50 eða 60 metrar á sekúndu. Þá ertu farin að nálgast 200 kíló­metra á klukku­stund.“

Þar sem er appel­sínu­gul við­vörun er 23 til 28 metrar, það er enn þá líka mjög hvasst?

„Já, 28 er eins og 100 kíló­metrar á klukku­stund. Þetta setur það kannski í sam­hengi. Þú stendur ekki í þessum hviðum og það fýkur allt sem getur fokið,“ segir Ei­ríkur Örn.

Rauða við­vörunin gildir til klukkan 21 í kvöld en eftir það tekur við appel­sínu­gul. Síðustu við­varanirnar eru ekki að renna úr gildi fyrr en eftir há­degi á morgun, en þær eru ýmist appel­sínu­gular eða gular. Ei­ríkur Örn segir að hann sé með það enn í skoðun hvað taki svo við.