Í dag klukkan 15 hófst utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir þau sem smituð eru eða eru í sóttkví vegna Covid. Atkvæðagreiðslan fer fram í Skarfagörðum 8 í 104 Reykjavík þar sem búið er að setja upp sérstaka aðstöðu sem hægt er að keyra í gegnum til að sýna atkvæði sitt og kjósa.
Opið verður alla vikuna frá klukkan 15 til 20 og svo á kjördag verður opið 10 til 17.
Á vef sýslumanns er að finna leiðbeiningar fyrir atkvæðagreiðsluna en þar segir að kjósandi mæti til atkvæðagreiðslunnar í bifreið, hann skuli vera einn í bifreiðinni og að honum sé óheimilt að opna hurðir eða rúður bifreiðarinnar.
Kjósandi fær ekki kjörgögn í hendur heldur upplýsir hann kjörstjóra um hvernig hann vill greiða atkvæði, til dæmis, með því að sýna blað með listabókstaf framboðs eða á annan hátt sem kjörstjóri telur öruggan og nægilega skýran.
Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður, segir að það sé mikilvægt að mæta tilbúinn á kjörstaðinn.
„Fólk þarf að vera með skilríkin, miða og vera búin að ákveða hvað það ætlar að kjósa. Það þarf að skrifa bókstafinn á miða og sýna kjörstjóranum,“ segir Sigríður.
Það þarf ekki að panta tíma til að kjósa í Skarfagörðu, eða framvísa vottorði.

Hægt að kjósa á dvalarstað á kjördag
Fyrir þau sem ekki geta yfirgefið heimili sitt vegna veikinda er hægt að sækja um að greiða atkvæði á dvalarstað sínum á kjördag.
Á vef sýslumanns segir að til að gera það verði að sýna fram á staðfestingu sóttvarnaryfirvalda á að kjósandi sé í einangrun eða sóttkví fram yfir kjördag. Vottorð þess efnis má nálgast á Heilsuveru.
Kjósandi sem er í sóttkví þarf að auki að tilgreina ástæður þess að hann kemst ekki á sérstakan kjörstað. Þessi krafa er ekki gerð til kjósenda sem verða í einangrun á kjördag.
Hver og einn kjósandi á sama dvalarstað þarf að leggja inn beiðni um heimakosningu. Ekki er nægjanlegt að leggja inn eina beiðni fyrir alla kjósendur á sama dvalarstað.
Beiðni um atkvæðagreiðslu á dvalarstað þarf að berast sýslumanni í tæka tíð:
- Fyrir kl. 10:00 á kjördag, laugardaginn 25. september, sé dvalarstaður í kjördæmi kjósanda
- Fyrir kl. 10:00 fimmtudaginn 23. september, sé dvalarstaður utan kjördæmis kjósanda.
Synja má kjósanda um að greiða atkvæði á dvalarstað telji sóttvarnaryfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun er endanleg.
