Í dag hófst utankjörfundaratkvæðagreiðsla í Smáralind og Kringlunni fyrir alþingiskosningar sem fara fram þann 25. september næstkomandi. Atkvæðagreiðslan fer fram á 3. hæð, bíógangi, í Kringlunni og á 1. hæð í Smáralind alla daga frá klukkan 10 til 22.
Á kjördag, þann 25. september, verður aðeins opið í Smáralind. Frá þessu er greint í auglýsingu frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Nánar hér.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst formlega þann 13. ágúst á skrifstofum sýslumann.
Framboðsfrestur til alþingiskosninganna rennur ekki út fyrr en 10. september og fyrir þann tíma liggur ekki fyrir hvaða samtök bjóða fram í kosningunum. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að vegna þessa liggi ekki upplýsingar um framboðslista og listabókstafi, á þeim stöðum þar sem kosning utan kjörfundar fer fram.
Atkvæðagreiðsla hefur farið vel af stað að sögn sýslumanns.
„Það er búið að vera meira heldur en í forsetakosningunum í fyrra,“ segir hún. „Aðsóknin hefur verið að aukast síðustu ár, og svo er náttúrlega þetta Covid-ástand. Fólk hefur áhyggjur af því að lenda í sóttkví eða einangrun ef það smitast fyrir kjördag og vilja margir vera búnir að kjósa fyrir kjördag,“ sagði Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, fyrir helgi.