Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mögulega ástæðu til að stíga frekari skref til verndar opinberum starfsmönnum og embættismönnum gegn atlögu stórfyrirtækja vegna skyldustarfa.

Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri sagði í viðtali í nýjasta tölublaði Stundarinnar að þörf væri á skýrari lögum til verndar opinberum starfsmönnum eins og í kærumáli Samherja gegn stjórn Seðlabankans. Segir hann starfsmenn Seðlabankans hafa verið hundelta vegna rannsókna sinna. „Ísland er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá,“ sagði seðlabankastjóri í Stundinni.

Forsætisráðherra tók fram í samtali við Fréttablaðið að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að hún hefði ekki lesið umrætt viðtal en að málefnið væri henni hugleikið. Hún hefði á kjörtímabilinu gert tvennt beintengt þessu: skipað sérstakan starfshóp um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu og lagt fram lagafrumvörp, sem voru samþykkt, um vernd uppljóstrara og betri skilgreiningu á þagnarskyldu og tjáningarfrelsi.

„Ég tel að við höfum verið að stíga skref til að tryggja stöðu þessa hóps,“ sagði Katrín.

„Þetta er eitthvað sem mér hefur þótt þurfa að gera bragabót á.“

Ný lög — lítil reynsla

Löggjöf um vernd uppljóstrara og breyting á stjórnsýslulögum um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu var samþykkt á síðasta þingi og er því lítil reynsla af framkvæmd laganna. Aðspurð hvort nýju lögin nái yfir stjórnendur Seðlabankans í téðu máli segir forsætisráðherra erfitt að segja til um það.

„Það getur vel verið að það þurfi að stíga frekari skref en það er illa hægt að meta það fyrr en við erum komin með þessa reynslu. Það tekur oftast lengri tíma fyrir menninguna að breytast en löggjöfina. En mér hefur þótt ástæða fyrir því að skoða þetta. Þess vegna hef ég lagt fram þessi frumvörp og látið vinna þessa vinnu því þetta er eitthvað sem mér hefur þótt þurfa að gera bragarbót á.“