Nú er hægt að sækja um og fá stafræn ökuskírteini í símann.

Hægt er að nálgast þau á upplýsingaveitunni Ísland.is með því að nota rafræn skilríki.

Hefðbundin ökuskírteini enn í gildi

Stafræn ökuskírteini verða jafngild hefðbundnum ökuskírteinum á Íslandi en megintilgangurinn er að notendur geti sannað ökuréttindi sín gagnvart lögreglu.

Stafræna ökuskírteinið gildir aðeins á Íslandi og einungis er hægt að hafa ökuskírteinið í einu símtæki.

Það gengur hvort tveggja fyrir Android- og iOS-stýrikerfi og góðar leiðbeiningar fylgja með umsóknarferlinu.

Þeir ökumenn sem hafa ekki endurnýjað ökuskírteini sín frá því fyrir árið 1998 þurfa að endurnýja þau hjá sýslumanni til að geta fengið skírteinið í símann.

Bjóða upp á stafrænar lausnir í auknum mæli

Ísland er annað landið í Evrópu að taka í notkun stafræn ökuskírteini á eftir Norðmönnum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, opnuðu í dag formlega fyrir aðgang að nýju skírteinunum og urðu fyrst til þess að fá stafræn ökuskírteini í símann.

„Flestir eru með símann á sér öllum stundum, en margir þekkja það að plastið gleymist.“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Anton Brink

„Tilkoma stafrænna ökuskírteina var eitt af þeim málum sem ég hafði mikinn áhuga á að koma í gagnið strax og ég mætti í ráðuneytið. Það er því afar ánægjulegt að sjá það verða að veruleika.“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Sigurður Ingi segir það vera stefnu stjórnvalda að hið opinbera bjóði upp á stafrænar lausnir í auknum mæli.

Sprotafyrirtækið Smart Solutions vann að stafrænni væðingu ökuskírteinisins í samráði við Ríkislögreglustjóra og Stafrænt Ísland.