„Það er enn óljóst hverju breskum flugumferðaryfirvöldum vilja fá úr bætt“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair, varðandi það hvort leyfi fáist fyrir áætlunarflugi Niceair frá Akureyri til London.

Þorvaldur segir að yfirmenn Niceair muni funda á morgun varðandi þær aðgerðir sem fara þurfi í til þess að fá heimild til flugsins.

Nú síðdegis var á vefsíðu flugfélagsins hægt að bóka ferðir til London með Niceair frá Akureyri og til baka næsta föstudag og næstkomandi mánudag. Þegar Þorvaldur var spurður um þetta sagði hann það koma honum á óvart að hægt væri að bóka þessa ferð og þakkaði fyrir ábendinguna.

Ekki hefur verið hægt að bóka flug til London með Niceair undanfarna daga eftir að vandamál komu upp varðandi heimildir til áætlunarflugs til Bretlands. Það er portúgalska flugfélagið Hi Fly sem annast flug fyrir Niceair.

Aðspurður segir Þorvaldur að ekki sé hægt að segja til um það hvort flugin næstu daga verði farin. „Við erum að funda um þetta frekar á morgun,“ segir hann.

Uppfært 19:18: Þegar fréttin birtist var enn hægt að bóka í flug en nú hefur verið lokað fyrir bókanir á vefsíðu Niceair.