Krónan hefur sett upp sér­stök af­pökkunar­borð í tveimur verslunum sínum þar sem við­skipta­vinir geta tekið um­búðir utan af þeim vörum sem þeir telja sig ekki þurfa. Um­búðirnar verða svo flokkaðar og endur­unnar. 

Fram kemur í til­kynningu frá Krónunni að um sé að ræða skref til þess að minnka plast og pappa, og að verslunin vilji finna leiðir til þess að minnka heimilis­ruslið. Mark­miðið verði að lág­marka um­búðir í sam­starfi við birgja og að sú vinna sé þegar hafin. 

„Við hjá Krónunni erum með­vituð um þá stað­reynd að ein helsta á­skorun í um­hverfis­málum sam­tímans er að minnka sóun, bæði þá sóun sem verður til vegna matar sem fer til spillis en einnig vegna pappa- og plast­um­búða utan um mat­væli og nauð­synja­vörur. Krónan er stórt fyrir­tæki sem getur nýtt kraft sinn til góðs og er af­pökkunar­borðið eitt af mörgum verk­efnum sem eru í gangi hjá okkur,“ segir Gréta María Grétars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, í til­kynningunni. 

„Okkar lang­tíma­markið er að finna um­búðir sem tryggja bæði að fersk­leiki mat­vörunnar haldist sem lengst svo matar­sóun aukist ekki og að um­búðirnar verði um­hverfis­vænni í góðri sam­vinnu við fram­leið­endur, sölu­aðila og okkar við­skipta­vini. Þannig má segja að mark­miðið sé að ekki verði þörf á af­pökkunar­borðum í fram­tíðinni,“ bætir hún við. 

Af­pökkunar­borðin eru komin upp í verslunum Krónunnar í Lindum og á Granda.