Í tvennum síðustu kosningum hefur munur á skoðana­könnunum og kosninga­úr­slitum í lang­flestum til­fellum verið innan við tvö prósent í heildina. Stærri munur getur komið fram hjá ein­staka flokkum og birtist þá sú skekkja hjá öllum könnunar­fyrir­tækjum. Þetta kemur fram hjá Haf­steini Einars­syni, doktors­nema í fé­lagstöl­fræði við Manchester-há­skóla.

„Í al­þjóð­legum saman­burði geta Ís­lendingar verið nokkuð á­nægðir með sínar kannanir,“ segir Haf­steinn. Hann hefur skoðað kannanir Frétta­blaðsins, Gallup, MMR, Zenter og Fé­lags­vísinda­stofnunar.

Árið 2016 birtist aðal­lega munur á tveimur flokkum þegar Sjálf­stæðis­flokkurinn var van­metinn um 3,05 prósent og Píratar of­metnir um 4,65. Ári seinna var enginn flokkur eins ná­lægt sínu könnunar­fylgi og Píratar. En þá var Sam­fylkingin of­metin um 2,36 prósent og Vinstri græn um 1,68 á meðan Fram­sóknar­flokkurinn var van­metinn um 1,84 prósent og Sjálf­stæðis­flokkurinn um 1,76.

Kosningaþáttakan dalað á síðustu árum

Van­metnastur af öllum var Flokkur fólksins, um 2,64 prósent og er Haf­steinn sann­færður um að frammi­staða formannsins, Ingu Sæ­land, í leið­toga­um­ræðunum hafi haft á­hrif. Þeir sem á­kveða sig á síðustu stundu eru nokkrir tugir prósenta og loka­metrar kosninga­bar­áttunnar geti því skipti sköpum. „Könnunar­fyrir­tækin mæla ekki þessa sveiflu,“ segir Haf­steinn.

Í báðum kosningunum birtist til­hneiging til þess að van­meta hægri­flokka og of­meta vinstri­flokka. Haf­steinn vill þó ekki full­yrða að les­endur verði alltaf að gera ráð fyrir slíkri skekkju. „Það er ekkert víst að hið sama gerist aftur í ár,“ segir hann. „Könnunar­fyrir­tækin hafa nú haft fjögur ár og aldrei að vita nema að breyting hafi átt sér stað á að­ferða­fræðinni.“

Könnunar­fyrir­tækin reyna sí­fellt að bæta kannanir sínar til að hafa þær sem á­reiðan­legastar. Fóru mörg í mikla nafla­skoðun eftir mjög ó­væntar kosningar um út­göngu Bret­lands úr Evrópu­sam­bandinu og kosninga­sigur Donalds Trump árið 2016.

Spurður hvað geti valdið vinstri skekkju í könnunum segir Haf­steinn það geta stafað af aldurs­dreifingunni. Yngri kjós­endur, sem lík­legri eru til að kjósa til vinstri, skili sér ekki jafn vel á kjör­stað og hinir eldri. „Mér finnst líka ekki ó­senni­legt að fólk sem er á­huga­samt um að taka þátt í könnunum sé vinstri­sinnaðra,“ segir hann. Einnig verði að taka til­viljun með í reikninginn.

Í kosninga­bar­áttunni núna hefur fylgi flokkanna verið mjög stöðugt fram að mánaða­mótum en síðan þá hefur verið vinstri­sveifla í könnunum.

Kosninga­þátt­taka hefur dalað um 10 prósent á rúmum 30 árum og fór árið 2016 undir 80 prósentin í fyrsta sinn á lýð­ræðis­tímanum. Einkum hefur dvínað þátt­takan hjá körlum. Þátt­takan fór þó upp um 2 prósent árið 2017, einkum vegna aukinnar þátt­töku ungs fólks. Haf­steinn segir lík­legt að á­takið Ég kýs hafi skipt þar miklu en óttast þó að þátt­takan dali aftur í ár.„Þetta verða mjög spennandi kosningar og tví­sýnt hvort ríkis­stjórnin haldi,“ segir Haf­steinn.

„Kosninga­bar­áttan hefur verið bæði mál­efna­leg og skemmti­legri en oft er af látið.“