Í tvennum síðustu kosningum hefur munur á skoðanakönnunum og kosningaúrslitum í langflestum tilfellum verið innan við tvö prósent í heildina. Stærri munur getur komið fram hjá einstaka flokkum og birtist þá sú skekkja hjá öllum könnunarfyrirtækjum. Þetta kemur fram hjá Hafsteini Einarssyni, doktorsnema í félagstölfræði við Manchester-háskóla.
„Í alþjóðlegum samanburði geta Íslendingar verið nokkuð ánægðir með sínar kannanir,“ segir Hafsteinn. Hann hefur skoðað kannanir Fréttablaðsins, Gallup, MMR, Zenter og Félagsvísindastofnunar.
Árið 2016 birtist aðallega munur á tveimur flokkum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var vanmetinn um 3,05 prósent og Píratar ofmetnir um 4,65. Ári seinna var enginn flokkur eins nálægt sínu könnunarfylgi og Píratar. En þá var Samfylkingin ofmetin um 2,36 prósent og Vinstri græn um 1,68 á meðan Framsóknarflokkurinn var vanmetinn um 1,84 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn um 1,76.
Kosningaþáttakan dalað á síðustu árum
Vanmetnastur af öllum var Flokkur fólksins, um 2,64 prósent og er Hafsteinn sannfærður um að frammistaða formannsins, Ingu Sæland, í leiðtogaumræðunum hafi haft áhrif. Þeir sem ákveða sig á síðustu stundu eru nokkrir tugir prósenta og lokametrar kosningabaráttunnar geti því skipti sköpum. „Könnunarfyrirtækin mæla ekki þessa sveiflu,“ segir Hafsteinn.
Í báðum kosningunum birtist tilhneiging til þess að vanmeta hægriflokka og ofmeta vinstriflokka. Hafsteinn vill þó ekki fullyrða að lesendur verði alltaf að gera ráð fyrir slíkri skekkju. „Það er ekkert víst að hið sama gerist aftur í ár,“ segir hann. „Könnunarfyrirtækin hafa nú haft fjögur ár og aldrei að vita nema að breyting hafi átt sér stað á aðferðafræðinni.“
Könnunarfyrirtækin reyna sífellt að bæta kannanir sínar til að hafa þær sem áreiðanlegastar. Fóru mörg í mikla naflaskoðun eftir mjög óvæntar kosningar um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og kosningasigur Donalds Trump árið 2016.
Spurður hvað geti valdið vinstri skekkju í könnunum segir Hafsteinn það geta stafað af aldursdreifingunni. Yngri kjósendur, sem líklegri eru til að kjósa til vinstri, skili sér ekki jafn vel á kjörstað og hinir eldri. „Mér finnst líka ekki ósennilegt að fólk sem er áhugasamt um að taka þátt í könnunum sé vinstrisinnaðra,“ segir hann. Einnig verði að taka tilviljun með í reikninginn.
Í kosningabaráttunni núna hefur fylgi flokkanna verið mjög stöðugt fram að mánaðamótum en síðan þá hefur verið vinstrisveifla í könnunum.
Kosningaþátttaka hefur dalað um 10 prósent á rúmum 30 árum og fór árið 2016 undir 80 prósentin í fyrsta sinn á lýðræðistímanum. Einkum hefur dvínað þátttakan hjá körlum. Þátttakan fór þó upp um 2 prósent árið 2017, einkum vegna aukinnar þátttöku ungs fólks. Hafsteinn segir líklegt að átakið Ég kýs hafi skipt þar miklu en óttast þó að þátttakan dali aftur í ár.„Þetta verða mjög spennandi kosningar og tvísýnt hvort ríkisstjórnin haldi,“ segir Hafsteinn.
„Kosningabaráttan hefur verið bæði málefnaleg og skemmtilegri en oft er af látið.“