Magda­lena Anders­son, leið­togi Jafnaðar­manna­flokks Sví­þjóðar, sagði í dag af sér sem for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar. Hún fundaði með Andreas Nor­lén, for­seta sænska þingsins og upp­lýsti hann um þetta.

„Ég hef til­kynnt for­seta þingsins að ef Hægri­flokkurinn skiptir um skoðun og vill eiga sam­starf við okkur í stað Sví­þjóðardemó­krata, þá standa dyr mínar opnar. Það sem ég sagði fyrir kosningar á náttúru­lega líka við eftir kosningar,“ sagði Magda­lena Anders­son á blaða­manna­fundi í morgun.

Frá­farandi ríkis­stjórn, sem er minni­hluta­stjórn Jafnaðar­manna og er varin van­trausti af flokkum vinstri ­blokkarinnar, tapaði naum­lega í þing­kosningum sem haldnar voru síðast­liðinn sunnu­dag. Ríkis­stjórnin hafði einungis eins manns meiri­hluta fyrir kosningarnar.

Ulf Kristersson, formaður Hægriflokksins er sagður vera næsti forsætisráðherra Svíþjóðar.
Fréttablaðið/EPA

Hægri­ blokkin, þar sem Hægri­flokkurinn og Sví­þjóðardemó­kratar eru stærstu flokkarnir, vann þriggja manna meiri­hluta og hafa síðustu daga staðið yfir þreifingar um stjórnar­myndun.

Hægri­stjórn leidd af Ulf Kristers­son, for­manni Hægri­flokksins, er sögð vera í kortunum þrátt fyrir fáar yfir­lýsingar. Heimildir Afton­bladet herma þó að stjórnar­myndunar­við­ræður á milli allra hægri­flokkanna, sem eru fjórir talsins, séu hafnar. Þá sé orku­mál helsta um­ræðu­efnið.

Niður­stöðurnar voru á þann veg að Jafnaðar­manna­flokkurinn fékk 107 þing­menn og er stærsti flokkurinn, Sví­þjóðardemó­kratar fengu 73 þing­menn og er annar stærsti flokkurinn og Hægri­flokkurinn fékk 68 þing­menn og er þriðji stærsti flokkurinn.

Sví­þjóðardemó­kratar er sá flokkur sem stendur lengst til hægri í sænskum stjórn­málum og vegna þess vilja miðju-hægri­flokkarnir Kristi­legir demó­kratar og Frjáls­lyndi flokkurinn ekki veita Sví­þjóðardemó­krötum ráð­herra­stóla. Það gæti flækt mál í stjórnar­myndunar­við­ræðum.

Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, var ánægður með niðurstöður kosninganna.
Fréttablaðið/EPA