Þingkosningarnar á Íslandi og í Þýskalandi um helgina staðfesta áframhaldandi hrun fylgis hægri popúlista í Vestur-Evrópu. Slíkir flokkar höfðu einnig tapað fylgi og þingsætum í norsku og hollensku kosningunum fyrr á árinu.

Í vor tapaði Frelsisflokkur Gerts Wilders rúmum tveimur prósentustigum og þremur þingsætum sínum. Fyrr í þessum mánuði tapaði Framfaraflokkurinn norski 3,5 prósentum og sex þingsætum. Um helgina tapaði Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, rúmum tveimur prósentum og ellefu þingsætum og hér heima tapaði Miðflokkurinn fjórum þingsætum.

„Þessi tegund stjórnmála gengur í bylgjum og fylgi flokkanna sveiflast mikið. Í faraldrinum hefur verið minna rými en oft áður,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Bifröst, sem hefur rannsakað hægri popúlismann.

Til að mynda hafi þetta birst í orðum Sigmundar Davíðs á kosninganótt þar sem hann skýrði fylgis­hrun Miðflokksins. Að í faraldrinum hefði ekki verið neitt rými til þess að „ræða stjórnmál“.

„Fókusinn hefur verið tímabundið annars staðar en stjórnmál hægri popúlista eru þó hvergi nærri á undanhaldi,“ segir Eiríkur og bendir á að meginstraumsflokkarnir hafi einnig að sumu leyti slegið vopnin úr höndum þeirra með því að taka sjálfir upp þjóðernishyggju. Þetta hafi til að mynda gerst hjá Sósíaldemókrataflokknum í Danmörku.

Síðasta stóra stökk hægri popúlista hafi komið árið 2016 í kjölfarið á hinum mikla flóttamannastraumi frá Miðausturlöndum og Afríku árið 2015. Umræðan um útlendingamál voru þá áberandi og beint samhengi milli hennar og fylgisaukningar hægri popúlista. Sú umræða hefur hins vegar dvínað sökum þess að færra fólk er á faraldsfæti.

Eiríkur segir erfitt að spá fyrir um það hvort kosningarnar í Svíþjóð og Frakklandi fari á sama veg. Þar hafa Svíþjóðardemókratarnir og Þjóðfylkingin verið sterk.

„Í síðustu forsetakosningum komst Marine Le Pen í aðra umferð sem lengst af þótti óheyrt að gæti gerst. Svíþjóðardemókratarnir unnu stórsigur í síðustu þingkosningum. Því er erfitt að sjá þessa flokka í línulegum vexti áfram.“

Hann bendir á að andstæðingar hægri popúlistaflokka ættu að bíða með að fagna dauða þeirra. Þessir flokkar hafi verið í andstöðu við hið frjálslynda lýðræði sem Vesturlönd séu byggð á. Undan því hafi molnað verulega í faraldrinum og það sé viðkvæmara en nokkurn tímann áður.

Flokkarnir séu ekkert á útleið þó þeir skipti kannski um lögun. „Þessi pólitík er komin til að vera.“