Mikið hefur verið skrifað um Volodímír Selenskíj sem kom eins og stormsveipur inn í pólitískt landslag Evrópu þegar hann var kosinn forseti Úkraínu með yfir 73 prósentum atkvæða 2019. Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar 2022 yfirgaf Selenskíj ekki landið heldur sat sem fastast og hefur hann verið hylltur sem þjóðhetja af löndum sínum og víða um Vesturlönd.

Minna er vitað um forsetafrúna en þrátt fyrir að Olena Volodímíríva Selenska (kvenkyns og karlkyns eftirnöfn eru með mismunandi endingar í Úkraínu) hafi staðið með manni sínum í einu og öllu gegnum stríðið hefur hún að mestu haldið sig utan sviðsljóssins.

Voru í sama barnaskóla

Olena Kíjashko fæddist þann 6. febrúar 1978 í borginni Kríjvíjí Ríh í miðhluta Úkraínu sem tilheyrði þá Sovétríkjunum. Móðir hennar var yfirverkfræðingur í verksmiðju og faðir hennar kenndi byggingarverkfræði í tækniháskóla í borginni. Í nýlegu viðtali við The Guardian segist Olena hafa alist upp við að tala rússnesku í fjölskyldu sem hélt þó fast í úkraínskan uppruna sinn. Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur fögnuðu þau sjálfstæði Úkraínu.

„Ég man að mér leið eins og það væri hið rétta í stöðunni, að við myndum skiljast að, því við eigum okkar eigin menningu og tungumál,“ segir hún.

Olena og framtíðareiginmaður hennar Volodímír eru jafngömul og voru hvort í sínum bekknum í sama barnaskóla. Þau kynntust hins vegar ekki fyrr en löngu síðar þegar þau voru í háskóla en Olena lærði arkitektúr við háskólann í Kríjvíjí Ríh og Volodímír lærði lögfræði við hagfræðistofnunina í sömu borg.

Volodímír og Olena fagna sigri Selenskíjs í úkraínsku forsetakosningunum 2019 með kossi.
Fréttablaðið/Getty

Eins og Rómeó og Júlía

Selenskíj-hjónin hafa alltaf verið mjög samheldin en eru að eigin sögn gjörólíkar týpur. Selenskíj er náttúrulegur performer sem elskar að vera í sviðsljósinu, enda varð hann fyrst þekktur innan Úkraínu sem leikari. Olena er hins vegar hæglátari og yfirvegaðri og kemur sjaldan fram í viðtölum. Olena minnist Volodímírs frá skólaárunum sem hróki alls fagnaðar.

„Bekkirnir okkar voru keppinautar – þetta var eins og Montague- og Kapúlet-fjölskyldurnar. En síðan hittumst við aftur í háskóla og auðvitað voru öll skrípalætin þá liðin hjá og maður var bara ánægður með að hitta aftur fólk sem maður þekkti í skóla. Við urðum fyrst vinir og byrjuðum síðan að deita,“ segir hún.

Samband þeirra hjóna þróaðist í gegnum fyrri hluta fullorðinsáranna en þau voru par í átta ár áður en þau giftust 6. september 2003. Í dag eiga þau tvö börn, dótturina Oleksöndru, sem fæddist 2004, og soninn Kíjríjlo, sem fæddist 2013.

Endalaust grín heima fyrir

Skömmu eftir að Volodímír og Olena hófu samband sitt stofnaði hann leikhópinn Kvartal 95 ásamt vinum sínum, sem nefndur var í höfuðið á hverfi í Kríjvíjí Ríh. Kvartal 95 keppti í spuna og gríni víða um fyrrum lönd Sovétríkjanna. Árið 2003, sama ár og þau giftust, byrjaði Kvartal að framleiða sjónvarpsþætti og var Olena ráðin inn sem handritshöfundur, sem er starf sem hún hefur gegnt með hléum alla tíð síðan.

Spurð um hvernig heimilislífið hafi verið með sprelligosa eins og Volodímír Selenskíj segir Olena: „Stöðugir brandarar. Stundum verð ég þreytt á endalausum fíflalátunum en hann verður það aldrei.“

Að sögn Olenu hefur jákvæðni og húmor eiginmanns hennar gert það að verkum að Volodímír getur alltaf fundið ástæður til að líta á björtu hliðarnar jafnvel þótt erfiðleikar steðji að.

Allur tilfinningaskalinn

Volodímír Selenskíj varð þjóðþekktur í Úkraínu fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Servant of the People, þar sem hann fór með hlutverk menntaskólakennara sem er óvænt kosinn forseti Úkraínu. Þættirnir voru framleiddir af Kvartal 95 og sýndir á árunum 2015-2019 við miklar vinsældir.

Volodímír kom Olenu svo rækilega á óvart 2018 þegar hann tilkynnti að hann hygðist bjóða sig fram sem forseti Úkraínu í raun og veru. Olena heyrði fyrst af ákvörðun eiginmanns síns í fréttum. Spurð um hvaða tilfinningar hún hafi gengið í gegnum segir hún einfaldlega: „Allan tilfinningaskalann.“

Þegar Rússar framkvæmdu hið óhugsandi og gerðu allsherjar innrás inn í Úkraínu þann 24. febrúar þóttust margir hafa séð það fyrir, enda hafði rússneskt herlið stundað heræfingar við landamærin mánuðum saman. Innrásin kom þó flatt upp á marga og ekki síst Olenu.

Þau hjónin voru sofandi heima í forsetahöllinni þegar innrásin hófst og Olena rumskaði við hljóð sem hún hélt að væru frá flugeldum en reyndust í raun vera sprengjur Rússa að falla í fjarska. Þegar hún vaknaði var hún ein í rúminu og fann að lokum Volodímír í næsta herbergi klæddan í jakkaföt á leiðinni í vinnuna.

„Hvað er í gangi?“ spurði hún. Volodímír svaraði: „Þetta er byrjað.“

Spurð um hvort hún hefði ekki trúað því að stríð væri í vændum segir Olena: „Í hreinskilni sagt? Nei. Ég trúði því ekki að það myndi gerast. Ég var ekki einu sinni búin að finna til vegabréfið mitt.“

Selenskíj hjónin með tyrknesku forsetahjónunum Recep Tayyip Erdogan og Emine Erdogan í byrjun febrúar 2022 meðan allt lék enn í lyndi.
Fréttablaðið/Getty

Í felum með börnin

Eins og áður sagði hefur Olena Selenska haldið sig nokkuð til hliðar undanfarna mánuði á meðan augu heimsbyggðarinnar hafa verið á eiginmanni hennar og stríðinu. Þar er þó alls ekki hógværð forsetafrúarinnar um að kenna heldur liggja ríkar öryggisástæður að baki þeirri ákvörðun.

Á fyrsta degi innrásarinnar 24. febrúar sagði Volodímír Selenskíj í ræðu til samlanda sinna: „Óvinurinn hefur merkt mig sem skotmark númer eitt, og fjölskyldu mína sem skotmark númer tvö.“

Volodímír hefur sjálfur að mestu haldið kyrru fyrir í höfuðborginni Kænugarði en Olena hefur verið í felum ásamt börnum þeirra Oleksöndru og Kíjríjlo víðs vegar um Úkraínu. Þau hjónin hafa því lítið getað hist undanfarna mánuði. Í viðtali við The Guardian segist Olena hafa fært sig um set reglulega en vill skiljanlega ekki gefa nánari upplýsingar um hvar hún og börnin hafa verið.

„Því minna sem ég segi, því öruggari er ég,“ segir hún en bætir þó við að þau hafi verið innanlands allt stríðið og hafi ekki dvalist neðanjarðar.

Skrýtið að vera forsetafrú

Olena viðurkennir að sér finnist hlutverkið forsetafrú nokkuð skrýtið. Að vera skilgreind út frá starfi eiginmanns síns án þess að hafa nokkurt raunverulegt vald og þurfa að sitja undir stöðugum athugasemdum um útlit sitt og framkomu. Hún hefur þó látið til sín taka á sinn eigin hátt og skipulagði til að mynda leiðtogafund forsetafrúa og forsetaeiginmanna í Kænugarði í fyrra. Tíu forsetafrúr sóttu fundinn, þar á meðal Emine Erdoğan, eiginkona Tyrklandsforseta, og Michelle Bolsonaro, eiginkona Brasilíuforseta.

Í byrjun maí, þegar tíu vikur voru liðnar af stríðinu, tók Olena svo á móti Jill Biden, forsetafrú Bandaríkjanna, og saman heimsóttu þær skóla í Vestur-Úkraínu og hittu Úkraínumenn sem flúið höfðu bardagana í austri.

„Það var mjög hugrakkt af henni að koma. Hún sýndi einstaka samkennd og var mjög áhugasöm um að heyra sögur fólks,“ segir Olena um fundinn með Jill Biden.

Halda í vonina

Þrátt fyrir að hafa verið í felum undanfarna mánuði viðurkennir forsetafrúin að hún hafi haft það auðveldara en margir aðrir Úkraínumenn. Það er þó ekki þar með sagt að stríðið hafi ekki tekið sinn toll af Selenskíj-fjölskyldunni. Olena hefur þurft að skipuleggja kennsluna fyrir sautján ára dótturina Oleksöndru og níu ára soninn Kíjríjlo, sem er orðinn nokkuð einmana eftir marga mánuði fjarri vinum sínum og skólafélögum.

Þá er ljóst að hugur forsetafrúarinnar leitar mikið til úkraínskra barna sem eru einna mest berskjölduð fyrir hörmungum stríðsins. Á fimmtugasta degi átakanna í apríl sagði forsetafrúin í viðtali við Elle að það besta fyrir úkraínsk börnin væri einfaldlega ef himninum yfir landinu yrði lokað, svo sprengjur Rússa gætu ekki lengur fallið.

Þegar forsetafrúin var innt eftir hver væri erfiðasta spurningin sem hún fengi frá börnum sínum sagði hún: „Það er ein spurning sem allir, bæði fullorðnir og börn, vilja fá svar við: Hvenær mun stríðið enda? Við erum meira að segja hætt að spyrja hvert annað að því… Við höldum bara í vonina. Við gerum það öll.“