Lögreglan í Nýja Sjálandi lagðist í, það sem gæti líklega talist, hægustu eftirför sögunnar þegar hún reyndi að stöðva gamlan mann á flótta í rafmagnshjólastól. Lögregla hugðist stöðva manninn fyrir hraðaksturinn á gangstéttinni, maðurinn hægði hins vegar ekki á sér heldur gaf í og upphófst þá eltingaleikurinn.

Eftirförin átti sér stað á miðvikudaginn í smábænum Timaru á suð-austurströnd Nýja Sjálands. Flóttamaðurinn, Charlie Durham, er 60 ára gamall og fótalaus. Hann bar fyrir sig að honum hefði ekki gefist tími til að stöðva þar sem hann hefði verið á leiðinni heim til að hella upp á te.

Flúði undan lögreglubíl

Uppátækið náðist á myndband þar sem heyra má konu hveta manninn áfram. ,,Áfram gamli maður, áfram."

Í myndbandinu sést rauður lögreglubíll aka fyrir rafmagnshjólastólinn sem flúði í kjölfarið yfir tvær akreinar yfir á hina hlið götunnar. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að ökumaðurinn hafi neitað að stöðva og viljandi forðast lögreglubílinn.

„Þetta hélt áfram í nokkurn tíma þar sem lögreglumaður gerði fjölmargar tilraunir til að stöðva ökumanninn sem hélt áfram að koma sér undan eftirlitsbílnum.“ Markmið lögreglu hafi verið að tryggja öryggi við notkun hjólastólsins.

Hélt að lögreglan væri ísbíll

Durham var sektaður fyrir athæfið og þarf að borga um það bil 25 þúsund krónur fyrir; „tillitslausan“ akstur á rafmagnshjólastól og að hafa ekki stöðvað að fyrirmælum lögreglu. Durham sagðist hafa haldið að lögreglubíllinn væri ísbíll sem hefði verið að reyna að selja honum ís, sem hann hafði ekki áhuga á að kaupa.

„Það er ýmislegt sem lögreglan gæti verið að gera annað en að elta mig,“ sagði Durham við fjölmiðla. Lögreglubíllinn hafi að mati Durham ollið mun meiri skaða heldur en hann sjálfur.

Hér má sjá bráfyndið myndband sem New Zealand Herald birti af atvikinu: