Sumir tón­listar­skólar á landinu eru yfir­fullir og þarf að hafna fjölda nem­enda sem vilja læra á hljóð­færi. Skóla­gjöld eru í hæstu hæðum. Vís­bendingar eru um að börn efna­minni for­eldra falli milli skips og bryggju í Reykja­vík.

Lang­lengstu bið­listar í tón­listar­nám eru í Vestur­bænum. Hæstu skóla­gjöld landsins eru í Reykja­vík, sem ó­líkt flestum öðrum sveitar­fé­lögum rekur ekki tón­listar­skóla á eigin vegum.

„Al­mennt eru skóla­gjöld í Reykja­vík mjög há og hærri en í öðrum sveitar­fé­lögum,“ segir Kristinn Örn Kristins­son, skóla­stjóri tón­listar­skólans Allegro.

„Eftir hrun lækkuðu styrkir til tón­listar­skóla um 20 prósent í Reykja­vík, þá hvarf selló­deildin okkar,“ bætir hann við. „Það var rætt um tíma­bundinn niður­skurð en hann stendur ó­haggaður.“

Kristinn Örn Kristins­son, skóla­stjóri tón­listar­skólans Allegro.
Mynd/Aðsend

Þegar Gylfi Þ. Gísla­son, fyrrum mennta­mála­ráð­herra, stóð fyrir upp­byggingu tón­listar­skóla um allt land var stefnan sú að óháð efna­hag ættu öll börn að fá tæki­færi til að læra á hljóð­færi. Reyndar vildi Ingvar Gísla­son, Fram­sóknar­flokki, ganga lengra og fella niður öll skóla­gjöld í tón­listar­skólum.

Á­hrif þess að öll börn gátu áður fyrr með litlum til­kostnaði lært á hljóð­færi urðu mikil, að sögn Atla Örvars­sonar tón­skálds.

„Gríðar­legur fjöldi hæfi­leika­ríkra Ís­lendinga spratt upp á tón­listar­sviðinu vegna þessarar stefnu og við höfum notið góðs af þessari fram­sýni,“ segir Atli.

Atla Örvars­son tón­skáld.
Mynd/Auðunn Níelsson

Blikur séu nú á lofti ef fjöldi barna fær ekki að þroska hæfi­leika sína eða stunda þá list sem hugur þeirra stendur til. Einnig sýna ýmsar rann­sóknir að tón­listar­nám og þátt­taka í söng­starfi hefur greindar­aukandi á­hrif.

Sam­kvæmt frum­varpi Gylfa Þ. Gísla­sonar átti þriðjungur kostnaðar við tón­listar­skóla að koma frá ríkinu, annar þriðjungur frá sveitar­fé­lögum og skóla­gjöld bæru uppi síðasta þriðjunginn. Í Reykja­vík eru nú dæmi um að tón­listar­veturinn fyrir eitt barn kosti á þriðja hundrað þúsund króna.

Meiri­hluti barna á Húsa­vík í ein­hvers konar tón­listar­kennslu

Á Húsa­vík fer öll kennsla fram innan veggja grunn­skólanna. Að sögn Guðna Braga­sonar skóla­stjóra nýtur mikill meiri­hluti grunn­skóla­barna í Norður­þingi ein­hverrar tón­listar­kennslu. Námið kostar tæp­lega 102.000 á vetri fyrir 6-20 ára. Það er tvö­falt lægra gjald en í sumum einka­reknum skólum í Reykja­vík.

„Ég vona að Reykja­vík stefni ekki aftur til forn­aldar," segir Guðni og á þar við mis­skipt tæki­færi eftir stöðu og efna­hag.

40-50 nem­endur eru á bið­lista í Allegro. Hver nemandi í skólanum þýðir hálfa milljón í launa­kostnað. Einnig þarf að greiða leigu og margt fleira kostnaðar­samt, að sögn skóla­stjóra.

Spurður hvort nem­endur komi nú orðið einkum frá efna­meiri heimilum, segir Kristinn það vera al­gengt. Dæmi um það séu um­fang skíða­ferða.

Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmda­stjórnar Sósíal­ista­flokksins, á sjálfur barn í tón­listar­námi. Hann segist oft hafa horft í kringum sig á tón­leikum í seinni tíð og tekið eftir að að­stand­endur tón­listar­barna komi að lang­mestu leyti úr efna­betri hópum. Það sé sorg­legt, enda mörg dæmi um að börn for­eldra úr verka­manna­stétt hafi breytt heiminum. Í listum sem öðru.

Gunnar Smári Egils­son, for­maður fram­kvæmda­stjórnar Sósíal­ista­flokksins.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

„Hvar eru á­hrif pólskra inn­flytj­enda í ís­lenskri tón­list?“ spyr Gunnar Smári.

Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­víkur­borgar, segir að ekki hafi fengist fjár­heimild til að taka aftur niður­skurð fram­laga til tón­listar­skóla eftir hrun. Hann bendir á að í Reykja­víkur­borg stundi um 500 nem­endur tón­list í gegnum skóla­hljóm­sveitir, þar sé kostnaður á nemanda mun lægri en í tón­listar­skólum eða um 33.000 krónur.

Allur kennslu- og stjórnunar­kostnaður er greiddur af borginni, að sögn Helga. Ár­leg niður­greiðsla fyrir hvert barn í einka­námi í tón­list sé um 600.000 krónur. Vanda­málið er að sögn Helga að sumir tón­listar­skólanna í borginni séu litlir, stjórnunar­kostnaður og annar rekstrar­kostnaður hár.

„Það eru okkur von­brigði hve skóla­gjöldin eru orðin há. En borgin byggir á ára­tuga hefð, að skólarnir séu sjálf­stætt starfandi.“

Helgi Gríms­son svið­stjóri hjá Reykja­víkur­borg.
Mynd/Aðsend