Frá því í ágúst 2018 og út júlí 2022 hafa Íslög, lítil lögmannsstofa í eigu hjónanna og lögmannanna Steinars Þórs Guðgeirssonar og Ástríðar Gísladóttur, fengið 76,2 milljónir króna greiddar frá fjármálaráðuneytinu fyrir lögfræðiþjónustu. Þetta eru 55 prósent af öllum lögfræðikostnaði ráðuneytisins á þessum tíma.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær gerði Sigurður Þórðarson, sem var settur ríkisendurskoðandi til að fylgjast með framkvæmd samnings milli fjármálaráðuneytisins og Lindarhvols ehf. sem falið var að selja eignir sem ríkið fékk í stöðugleikaframlag frá þrotabúum föllnu bankanna, alvarlegar athugasemdir við starfsemi Lindarhvols.

Meðal þess sem Sigurður gagnrýndi í greinargerð voru mjög mikil umsvif Steinars Þórs á vegum stjórnar Lindarhvols. Á þeim tveimur árum sem félagið starfaði greiddi Lindarhvoll tæpar 120 milljónir til lögmannsstofu Steinars Þórs. Frá því að starfsemi Lindarhvols var hætt í febrúar 2018 hefur félagið greitt lögmannsstofunni röskar 20 milljónir, samtals 140,5 milljónir.

Samtals hafa Íslög fengið greiddar tæplega 217 milljónir frá fjármálaráðuneytinu og Lindarhvoli frá 2016. Eru þá ótaldar greiðslur frá Seðlabankanum en Steinar Þór hefur sinnt ýmsum verkefnum fyrir Eignasafn Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt reglugerð fjármálaráðuneytisins um vöru- og þjónustukaup ber opinberum aðilum að fara í opið útboð sé verðmæti verkefna meira en 18,5 milljónir króna.