Meirihluti öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í gær tilnefningu Joes Biden Bandaríkjaforseta til innanríkisráðherra en fulltrúadeildarþingmaðurinn Debra Haaland mun leiða ráðuneytið. Haaland hefur setið sem fulltrúadeildarþingmaður fyrir Nýju-Mexíkó frá árinu 2019.

Þetta er í fyrsta sinn sem frumbyggi í Ameríku (e. Native American) gegnir embætti ráðherra í Bandaríkjunum en Haaland er hluti af Laguna Pablo ættbálknum í Nýju-Mexíkó. Frá því að Biden tók við embætti þann 20. janúar síðastliðinn hefur hann lagt mikla áherslu á fjölbreytileika embættismanna, ekki síst innan ríkisstjórnarinnar.

Neitað um sæti við borðið

Að því er kemur fram í frétt Politico um málið mun Haaland meðal annars stýra samskiptum ríkisstjórnarinnar við ættbálka frumbyggja í Bandaríkjunum og þeirra landsvæði, sem eru um 20 prósent af öllu landsvæði í Bandaríkjunum.

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata innan öldungadeildarinnar, sagði í kjölfar atkvæðagreiðslunnar að um væri að ræða mikilvæg tímamót fyrir Bandaríkin. „Of lengi hefur ættflokkum verið neitað um sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar sem snerta þeirra líf og þeirra landsvæði.“

Öðruvísi áherslur sem ráðherra

Tilnefning Haaland var meðal annars umdeild vegna sjónarmiða hennar á nýtingu auðlinda en hún hefur verið hörð á því að ekki eigi að nýta jarðefnaeldsneyti sem finnst á svæðum frumbyggja og var til að mynda á móti byggingu olíuleiðslukerfis í Norður-Dakóta.

Til þess að tryggja það að tilnefning hennar yrði samþykkt virtist Haaland draga úr gagnrýni sinni og sagði að sem innanríkisráðherra myndi hún sinna öðru hlutverki og hafa aðrar áherslur en sem fulltrúadeildarþingmaður. Hún kæmi því til með að vinna með ríkjunum þegar kemur að uppbyggingu á svæðunum.

Atkvæðagreiðsla um tilnefninguna fór að mestu eftir flokkslínum en fjórir þingmenn Repúblikana kusu með tilnefningunni. Alls kaus 51 þingmaður með tilnefningunni en 40 á móti, þar sem þó flestir úr röðum Repúblikana lögðust gegn tilnefningunni með þeim rökum að Haaland væri of mikil öfgamanneskja.