Réttarhöldin yfir hinum mexíkóska Joaquín Guzmán Loera, kallaður El Chapo eða einfaldlega sá stutti á íslensku, hefjast í New York á morgun. El Chapo er ákærður fyrir meðal annars smygl á fjölmörgum tonnum af kókaíni og samsæri um morð og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm. Búist er við því að réttarhöldin standi yfir í um fjóra mánuði.

Sá stutti hefur lengi verið einn eftirlýstasti glæpamaður heims og eru þeir Al Capone þeir einu sem hafa fengið nafnbótina „Public Enemy Number 1“ hjá eftirlitssamtökunum Chicago Crime Commission. Persóna El Chapo og lífshlaup hans er lygilegt. Mexíkóar hafa samið söngva um meint ódæðisverk hans, svokallaða narcocorridos, og bandarískir popptónlistarmenn hafa vitnað til hans í textum sínum. Þá hafa Netflix og Univision unnið saman þáttaröðina El Chapo er fjallar um ævi þessa höfuðpaurs. 

Gylltir hríðskotarifflar

El Chapo var leiðtogi glæpasamtakanna Sinaloa í Mexíkó og undir hans stjórn urðu samtökin þau stærstu í fíkniefnaheiminum. Auður El Chapo er mikill. Hann hefur mundað gyllta hríðskotariffla og skammbyssur skreyttar demöntum.

Undanfarin tæp tvö ár hefur hann hins vegar verið læstur inni í fangelsi á Manhattan og mátt dúsa í fangaklefa sínum 23 klukkustundir á dag, 24 um helgar. Hann hefur ekki fengið að stunda líkamsrækt, ljósin eru alltaf kveikt og loftræstingin virkar illa, að því er kom fram í kvörtun lögfræðinga Guzmáns í fyrra þar sem sagði að aðstæðurnar væru „mun öfgafyllri en í Mexíkó“. Hann hefði því upplifað ofskynjanir í klefanum.

Sinaloa, að því er kemur fram í ákærunni á hendur El Chapo, spruttu upp úr samtökum mexíkóskra glæpahringja á níunda áratugnum. Eftir innbyrðis deilur um aldamótin stóðu Sinaloa-menn einir eftir og voru því handhafar stærsta fíkniefnaveldis heims. Þeir högnuðust um milljarða dala á smygli til Bandaríkjanna en vert er að taka fram að El Chapo var á lista Forbes yfir milljarðamæringa allt þar til 2013. Þá var hann einnig ofarlega á listanum yfir valdamesta fólk heims þar til 2014 þegar hann var handtekinn í heimalandinu.

Handtökur og flótti

Það var þó ekki í fyrsta skipti sem El Chapo var handtekinn. Hann var fyrst handsamaður í Gvatemala árið 1993, framseldur til Mexíkó og dæmdur í tuttugu ára fangelsi. Þaðan slapp hann árið 2001 og að því er kemur fram í umfjöllun The New York Times flúði hann mögulega í samvinnu við forstöðumann fangelsisins, falinn í þvottakörfu.

Víðtæk leit að þeim stutta tók við og var hann ekki gómaður fyrr en 2014. Þá voru lífverðir hans handteknir og bentu á að El Chapo væri á heimili fjölskyldu sinnar í Sinaloa-ríki. Illa gekk hins vegar að brjóta niður stálstyrktar útidyrnar og slapp sá stutti í gegnum leynigöng undir húsinu og ferðaðist þaðan til Mazatlán. Í samvinnu við mexíkóska sjóherinn og Bandaríkjaher náði lögregla svo að handtaka El Chapo á hóteli í Mazatlán. Var hann síðan ákærður fyrir fíkniefnasmygl og fangelsaður.

Þrátt fyrir að El Chapo hafi verið bannað að fara út úr fangaklefa sínum náði hann að sleppa úr fangelsinu, sem átti að vera á meðal þeirra öruggustu í Mexíkó, árið 2015. El Chapo laumaðist í gegnum göng sem samstarfsmenn hans höfðu grafið inn í sturtuklefa fanga og ók á brott á mótorhjóli. Við tók enn ein dauðaleitin að þeim stutta og var þessi öllu styttri. Hann var handtekinn ári síðar í sameiginlegum aðgerðum lögreglu og hers.

Þar sem El Chapo átti yfir höfði sér fjölda ákæra í Bandaríkjunum var hann framseldur þangað. Samkvæmt framsalssamningi ríkjanna mega Bandaríkin ekki dæma El Chapo til dauða fyrir meinta glæpi sína.

Fær ekki að faðma eiginkonuna

Í janúar í fyrra var Guzmán fyrst dreginn fyrir dóm í New York þar sem hann kvaðst saklaus af öllum sautján ákæruliðunum. Síðan þá hefur málið verið í nokkrum hægagangi en val á kviðdómendum fór fram fyrr í þessum mánuði. Þar var einum mögulegum kviðdómara hafnað vegna þess að hann hafði óskað eftir eiginhandaráritun ákærða.

Bandarísk yfirvöld óttast mjög að Guzmán reyni að flýja, að því er Business Insider greindi frá. Dómarinn í málinu, Brian Cogan, hafnaði því ósk El Chapo um að hann fengi að faðma eiginkonu sína þegar hann gengur inn í dómsal á morgun. „Þetta gæti til að mynda verið stutt faðmlag fyrir allra augum með handrið þeirra á milli. Það ætti ekki að taka meira en nokkrar sekúndur,“ sagði í bréfi sem lögfræðingur þess stutta sendi dómara.

Íburðarmikil réttarhöld

Saksóknarar í málinu hyggjast á næstu mánuðum greina ítarlega frá meintum brotum þess stutta. Með söluskrár, gervihnattamyndir og hljóðupptökur að vopni ætla saksóknarar að sýna fram á að á tuttugu ára ferli sínum hafi Guzmán hagnast um fjórtán milljarða Bandaríkjadala á fíkniefnaviðskiptum og meðal annars nýtt féð til að múta embættismönnum og til þess að ráða leigumorðingja. Að því er kemur fram í umfjöllun New York Times er búist við því að fjandmenn Guzmáns, bandamenn og undirmenn, sérfræðingar og lögreglumenn muni bera vitni í málinu.

Yfirvöld hafa reynt af bestu getu að tryggja öryggi vitna enda, eins og segir í annarri umfjöllun New York Times, algengt að fíknefnabarónar láti myrða vitni í málum gegn sér. Þannig hefur nöfnum vitna verið haldið leyndum við nokkura óánægju lögfræðinga þess stutta.

El Chapo hefur varið að minnsta kosti fimm milljónum dala í að ráða sér lögfræðinga. Samkvæmt New York Post fer Jeffery nokkur Lichtman fyrir teyminu en sá var áður verjandi mafíósans Johns Gotti yngri, sonar guðföðursins Johns Gotti. Einnig verja þeir Eduardo Balarezo og William Purpura þann stutta. Þeir voru áður verjendur höfuðandstæðings Guzmáns í fíkniefnaheiminum, „eyðimerkurmaursins“ Alfredos Beltran Leyva.