„Þetta verða auðvitað mínir „usual suspects“ en það eru nýir aðilar sem koma virkilega sterkir inn. Ég vil eiginlega ekki segja of mikið því ég vil að þetta komi á óvart. Sindri Sindrason, Helgi Björns og Kári Stefáns eru á plakatinu en það laumast fleiri óvæntir inn.“

Þær persónur sem lengst hafa fylgt Sóla í uppistandinu eru Pálmi Gunnarsson, Gylfi Ægis, Páll Óskar og Herbert Guðmundsson.

„Pálmi var fyrsti frægi einstaklingurinn sem ég tók fyrir og Gylfi næstur. Það er einhvern veginn þannig að þegar maður ætlar að henda þessum mönnum út finna þeir sér alltaf leið inn í prógrammið aftur,“ segir Sóli í léttum tón.

„Eyvi verður alltaf að taka Nínu og Gylfi Ægis er bara mín Nína og Páll Óskar mín Álfheiður Björk. Þessir menn verða alltaf að vera með. Maður getur ekki sent fólk svangt út.“

„Eyvi verður alltaf að taka Nínu og Gylfi Ægis er bara mín Nína og Páll Óskar mín Álfheiður Björk."

Aðspurður um eftirlæti segir Sóli svarið einfalt, skemmtilegast sé að herma eftir þeim sem mest er hlegið að í það skiptið.

„Þá æsist ég upp og geri þá persónu stærri og meiri. En það er skemmtilegast að syngja eins og Páll Óskar og að tala eins og Gísli Einarsson. Svo hef ég alltaf gaman af því að taka eitthvað gott rant sem Herbert Guðmundsson. Þetta er eins og með börnin manns, maður elskar ákveðna eiginleika í þeim.“

Sóli kynnir í sýningunni til leiks nýja aðila sem hann segir koma virkilega sterka inn. Fréttablaðið/Ernir

Upphefð að hermt sé eftir þér


„Ég sé strax hvort ég get hermt eftir einhverjum eða ekki, en til að ég fari með það á svið er tvennt sem þarf að ganga upp, það er að ég geti hermt eftir viðkomandi og að hann sé nógu frægur til að fólk kveiki á því.

Ég á hundruð eftirherma af fólki sem enginn veit hver er. Það er langskemmtilegast að herma eftir því fólki, enda alltaf gert í litlum hópi þar sem fólk þekkir vel til.

Ég hermi aldrei eftir fólki fyrir framan það, eða reyni að gera það ekki, því mér finnst það óþægilegt. En þessir þekktu einstaklingar sem hafa ratað upp á svið til mín hafa allavega þóst hafa gaman af því og þótt það bara heiður.

Enda ef það er hægt að herma eftir þér ertu með einhver einstök karaktereinkenni, ef ekki, þá leyfi ég mér að segja að þá sértu bara ekki nógu spennandi. Svo fólk ætti að taka því sem upphefð að hermt sé eftir því.“

Eins og fyrr segir er frumsýning um helgina í Bæjarbíói, Hafnarfirði. Uppselt er á fyrstu sýningarnar en nýjar sýningar koma í sölu í vikunni inni á tix.is.

„Svo má benda þeim sem vilja detta í það á að Ásinn fer alla leið að Bæjarbíói svo það er ekkert mál að taka strætó,“ segir Sóli léttur að lokum.