Heimsþing gyðinga kallar eftir því að Íslendingar og aðrar Norðurlandaþjóðir banni nýnasistasamtökin Norrænu mótstöðuhreyfinguna, sem hefur gengið undir nafninu Norðurvígi hér á landi. Finnar hafa nú þegar bannað samtökin sem voru með samrýmdar aðgerðir um öll Norðurlönd á Yom Kippur, helgasta degi gyðinga.

Í ár hófst Yom Kippur síðastliðið sunnudagskvöld og lauk á mánudagskvöld. Avi Feldman, rabbíni Íslands, segist hafa fengið eina tilkynningu er varðaði veggjakrot með hatursáróðri. Hann sjálfur hafi ekki orðið mikið var við samtökin hingað til, utan þess sem birst hafi í fréttum.

Á hinum Norðurlöndunum voru skemmdarverk unnin á ýmsum stofnunum gyðinga og áróðri dreift, meðal annars í sýnagógu í sænsku borginni Nörrköping, meðan á trúarathöfn stóð.

„Það er á ábyrgð ríkisstjórna og löggæsluyfirvalda að tryggja að trúarlegar og samfélagslegar stofnanir gyðinga hafi næga lögregluvernd til að gyðingar geti iðkað trú sína án ógnana og ótta,“ sagði Ronald S. Lauder, forseti heimsþingsins, í yfirlýsingu. Minnti hann á að á Yom Kippur í fyrra hefði hægriöfgamaður myrt tvær manneskjur í Halle í Þýskalandi, eftir að hafa reynt að komast inn í sýnagógu.

Hæstiréttur Finnlands bannaði Norrænu mótstöðuhreyfinguna síðastliðinn miðvikudag og úrskurðaði að stefna samtakanna gengi gegn gildum lýðræðislegs samfélags, og að ekki væri hægt að aðskilja samtökin og ofbeldisverk sem meðlimir þess hefðu framið í landinu. „Tilgangur og starfsemi samtakanna er ekki varið af félagafrelsi eða málfrelsi,“ segir í dómnum.

Fyrir rúmu ári komu meðlimir samtakanna víðs vegar af Norðurlöndum til Íslands. Stóðu þeir með fána á Lækjartorgi og dreifðu áróðursmiðum. Þurfti lögregla að hafa afskipti af samkomunni og var einn handtekinn þar sem hann neitaði að segja til nafns. Var áróðursmiðum dreift víðar, svo sem á háskólasvæðinu.

Avi segir að þau tvö ár síðan hann og fjölskylda hans komu til landsins hafi verið afar góð og að viðhorf bæði almennings og yfirvalda hafi verið jákvæð. „Okkur hefur liðið vel og við höfum ekki upplifað hatur eða fordóma í okkar garð,“ segir hann. Hann harmi aðgerðir samtakanna á Norðurlöndum. „Það er mjög slæmt að fólk skuli sýna slíkt hatur, sérstaklega á þessum degi sem er okkur afar mikilvægur. Sem betur fer höfum við ekki orðið fyrir barðinu á þessu og ég vona að svo verði áfram.“

Avi Feldman rabbíni. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari