Bandarísku samtökin ADL, sem berjast gegn fordómum gegn gyðingum, eru uggandi vegna netsíðu sem vísar á heimilisföng stofnana, fyrirtækja og skóla sem mörg hver hafa tengsl við gyðinga.

Síðan, sem kallast The Mapping Project, er hýst hjá íslenska fyrirtækinu 1984 og hefur meðal annars vakið viðbrögð hjá þingmönnum ytra.

Yfirskrift síðunnar er að berjast gegn nýlendustefnu Ísrael og Bandaríkjanna með því að „trufla“ eða „rífa niður“ þá sem styðja við hana. Síðan nær til fylkisins Massachusetts í norðausturhluta Bandaríkjanna og þar eru kortlögð heimilisföng og tengingar milli stofnana, skóla, fyrirtækja og jafnvel einstaklinga.

Helmingurinn af tæplega 500 heimilisföngum er hjá lögreglunni. En meðal þess sem er kortlagt er framhaldsskóli gyðingabarna, samtök gyðinga með fötlun, spítalar, háskólar á borð við Harvard og MIT og lyfjafyrirtækin Moderna og Pfizer.

Nærri 500 heimilisföng eru kortlögð á síðunni og hvatt til niðurrifs eða truflunar.
Mynd/Skjáskot

Stjórnmálamenn eru einnig kortlagðir á síðunni, þar á meðal hin þekkta öldungadeildarþingkona Demókrata, Elizabeth Warren.

Samflokksmaður hennar í neðri deild, Josh Gottheimer frá New Jersey, hefur vakið athygli á að síðan hvetji til ofbeldis. „Við megum ekki skella skollaeyrum við þessari hvatningu til ofbeldis,“ sagði hann samkvæmt fréttastofunni AP. Þá sagðist Rachel Rollins, ríkissaksóknari Massachusetts, ætla að rannsaka hvort síðan gangi yfir mörk þess sem telst hættulegt og ólöglegt. „Svona orðræða er hættuleg. Við þurfum að athuga hvað við getum gert til að svæla þetta burt,“ sagði hún.

Aðspurður um málið vísaði Mörður Ingólfsson, framkvæmdastjóri 1984, í yfirlýsingu sem fyrirtækið lét gera á ensku. Þar segir að nafn fyrirtækisins sé engin tilviljun og vísi í vísindaskáldsögu Georges Orwell. Að 1984 hýsi þá sem tali gegn þeim valdamiklu og miskunnarlausu. Þar á meðal blaðamönnum og aktívistum víðs vegar um heim sem gætu átt yfir höfði sér fangelsisdóma eða jafnvel dauðadóma fyrir að tjá sig.

„Það sem við gerum ekki er að hýsa þá sem tala fyrir ofbeldi, ógnun, bælingu eða hatri. Við köstum út nýnasistum og rasistum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við höfum mátt þola endurteknar og alvarlegar netárásir, lögsóknir og hótanir um líkamlegt ofbeldi frá hatursfullum hópum af ýmsum toga sem reyna að fá okkur til að taka niður vefsíður. Við gefumst ekki upp, sama hvað það kostar okkur í málskostnað, öryggistryggingar eða hugarró.“

Málið er ekki það fyrsta þar sem umdeild eða ólögleg erlend starfsemi er hýst hjá íslenskum fyrirtækjum. Fyrirtækið Orange Website komst í heimsfréttirnar er kom í ljós að hryðjuverkasamtökin ISIS hýstu síðu sína hjá því og seinna hefur fyrirtækið hýst bæði bandaríska nýnasista og breska Covid-svindlara. Árið 2018 kom upp tilvik þar sem 1984 lokaði léni svindlara sem þóttust vera íslenska lögreglan.