Félag gyðinga á Íslandi hefur fengið formlega staðfestingu á trúfélagsskráningu og getur brátt hafið skráningar. Rabbíni Íslands segir skráninguna mjög mikilvæga og flýta fyrir því að hægt verði að byggja sýnagógu til trúarathafna.
Gyðingar á Íslandi hafa fengið staðfestingu sýslumanns á trúfélagsskráningu og brátt verður hægt að skrá sig í félagið. Stofnfélagar eru á fimmta tug og eingöngu er beðið eftir kennitölu fyrir hið nýja félag.
Rabbíni félagsins, hinn bandaríski Avi Feldman, segir að ferlið hafi tekið rúmlega ár og hafi tafist vegna faraldursins. Miðað við það skriffinnskufargan sem hann er vanur í Bandaríkjunum gekk skráningin þó tiltölulega auðveldlega fyrir sig. Margir í samfélagi gyðinga hafi komið að því að gera þetta að veruleika.
Ég hef trú á því að félögum muni fjölga á komandi árum
„Öllum er frjálst að taka þátt í starfinu og við þrýstum ekki á fólk að skrá sig. En ég hef trú á því að félögum muni fjölga á komandi árum,“ segir Avi sem flutti ásamt fjölskyldu sinni til Íslands árið 2018.
„Við erum himinlifandi með skráninguna. Þegar við komum til Íslands vissum við að þetta væri mikilvægt skref fyrir samfélag gyðinga og höfum lagt mikla vinnu í þetta,“ segir Avi. Hann bendir þó á að gyðingar hafi iðkað trú sína á Íslandi í áratugi án þess að vera í skráðu trúfélagi.
Skylt að leggja til ókeypis lóðir
Samkvæmt lögum um kristnisjóð er sveitarfélögum skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og með lögjöfnun hefur þetta verið túlkað sem svo að þetta eigi við um önnur trúfélög líka. „Við stefnum á að byggja sýnagógu í framtíðinni og skráningin flýtir þeirri þróun,“ segir Avi en segir að félagið geti starfað fram að því. Sérstakt hús sé ekki nauðsynlegt heldur geti sýnagóga verið skilgreind sem staður þar sem gyðinglegir viðburðir fari fram.