Hið þekkta bandaríska tímarit Time Magazine fjallar um mál refsins, Gústa Jr., í sínu nýjasta tölublaði sem kom út í gær.

Í tímaritinu er sagt frá því þegar lögreglan fór heim til Ágústs Beinteins Ágústssonar, eða Gústa B, umsjáraðila Gústa refs þann 25. október síðastliðinn.

Tilefni heimsóknarinnar var að taka refinn frá Gústa B. en líkt og flestum er kunnugt um hér á landi er bannað að halda úti villt dýr samkvæmt lögum.

„Þetta er frábær viðurkenning fyrir Gústa Jr., hann er formlega orðinn heimsfrægur. Ekki síður viðbrögð íslenskra yfirvalda við refnum,“ hafði Gústi B. um málið að segja þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Hér má sjá umfjöllun Time um Gústa Jr.
Mynd/Aðsend
Gústi Jr. refur.
Mynd/Aðsend

Mál Gústa Jr. hafa vart farið framhjá neinum en mikið hefur verið fjallað um mál þeirra félaga undanfarið.

Nafnarnir vöktu mikla athygli á TikTok nýverið þar sem Gústi B. birti nokkur myndskeið af sér með refnum Gústa Jr.

Mikil umræða skapaðist í kjölfarið þar sem Matvælastofnun, MAST, ásamt fleirum hvatti Gústa B. til að afhenda refinn, óheimilt væri að halda villt dýr.

Starfsmenn MAST ásamt lögreglu fóru meðal annars heim til Gústa B. og óskuðu eftir að fá refinn afhentan til að koma honum í umsjá Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.