Gunn­þór Ingva­son, fram­kvæmda­stjóri Síldar­vinnslunnar, er afar ó­sáttur við frétta­flutning af tölvu­póst­sam­skiptum sínum við Sam­herja og segir í sam­tali við Frétta­blaðið í dag að þau hafi verið slitin úr sam­hengi, hann hafi ekki ætlað að blekkja neinn, pósturinn hafi verið sendur í hálf­kæringi.

Frétta­blaðið hafði sam­band við Gunn­þór í gær vegna málsins. Vildi hann ekki tjá sig á þeim tíma­punkti. Í sam­tali við blaðið í dag segir hann að hann hafi ekki heyrt í blaða­manni þegar hann hafði sam­band við hann í gær.

Um­ræddur póstur Gunn­þórs, sem birtur er orð­rétt og Frétta­blaðið fjallaði um í dag, var sendur 30. apríl 2014 og er hluti skjala sem Wiki­leaks hefur birt. Pósturinn ber yfir­skriftina: Að nema nýjar lendur.

„Þetta er al­gjör blekkingar­leikur hjá ykkur í þessu til­viki. Síldar­vinnslan er búin að vera leiðandi í upp­byggingu á upp­sjávar­vinnslu á Ís­landi í ára­tugi og vinna með fyrir­tækjum eins og Skaganum og fleirum,“ segir Gunn­þór í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir tölvu­póstinn hafa verið slitinn úr sam­hengi og al­vöru hafi ekki fylgt efnis­legu inni­haldi hans.

Hann segist spurður ekkert hafa vitað um starf­semi Sam­herja í Afríku. „Ég hafði ekki hug­mynd um það sem Sam­herji var að gera í Afríku. Þessir menn, fengu eins og sést í þessum tölvu­póstum, stundum upp­lýsingar og kynningar en ég hafði ekki hug­mynd um þessa starfs­hætti.“

„Sam­herji bara tjáir sig um sín mál en að draga okkur inn í þetta,“ segir Gunn­þór og segist sleginn yfir fregnum sem birtust í Kveik. „Ég hef unnið með Þor­steini Má í mörgum verk­efnum en þetta er ný birtingar­mynd og ég hef alltaf lagt á­herslu á að fara að öllu með lögum.“

„Þetta er gjör­sam­lega slitið úr sam­hengi. En að vera að blanda manni í svona mál. Ég hef engar á­hyggjur af þessu Sam­herja­máli enda þeirra mál og kemur okkur ekkert við,“ segir Gunn­þór. Spurður hvaðan talið um Afríku komi segir Gunn­þór.

„Síldar­vinnslan er með upp­sjávar­vinnslu og eina á­stæðan fyrir því að ég sendi þennan tölvu­póst er það að ég vissi að þeir voru búnir að vera að skoða það að byggja upp­sjávar­vinnslur í Marokkó. Ég í mesta sak­leysi mínu ætlaði að stytta mér leið í að svara honum, um það hvort þeir ættu þessi gögn,“ segir Gunn­þór og segist ekki sjá hvernig það komi út að hann hafi ætlað sér að blekkja Græn­lendinga.

„Ég treysti því bara að Sam­herji svari fyrir sitt mál en að draga mig, starfs­menn mína og fjöl­skylduna inn í þetta er ömur­legt. Skaginn er búinn að koma til Nes­kaups­staðar og fá að koma með gesti. Þessir menn, Jóhannes og þeir. Þeir hafa spáð í þetta og hafa komið að sjá verk­smiðjuna. Og það er ekkert ó­eðli­legt við það en hvað þeir voru að spá í Afríku kemur mér bara ekkert við.“

„Alveg eins og í þessu sam­hengi núna að þá er subjectið ó­heppi­leg, en að það hafi verið meining á bak við þetta,“ segir Gunn­þór. Spurður hvort að engin meining hafi verið að baki segir Gunn­þór það standa í póstinum. „Það stendur í póstinum, ég segi í póstinum að hann sé ekkert að spá í að blekkja einn eða neinn.“