Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, segir að það sé of snemmt að segja til um niðurstöður kosninganna en býst við því að vera vakandi fram á nótt til að fylgjast með talningu atkvæða.
„Þetta verður tæpt og við verðum vakandi í alla nótt. Við erum við fimm prósenta mörkin og ég kann ekki að lesa í það hvort að samsetningin er eitthvað öðruvísi með utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða þá sem kusu seinna um daginn. Ég kann ekki að meta það en þetta er það lítill munur að það er engin ástæða fyrir okkur að fara að sofa í svekkelsi,“ segir Gunnar Smári.
Eins og staðan er núna er enginn þingmaður flokksins inni en ef þau fara yfir fimm prósentin ættu þau þrjá þingmenn inni.
„Það er þekkt í sögunni að það er byrjað að telja fyrst atkvæði þeirra sem kjósa fyrst og seinna þau sem að kjósa seint. Það getur verið öðruvísi samsetning og það munar svo litlu að það er engin ástæða til að gefast upp strax,“ segir Gunnar Smári.
Hann segir að flokkurinn hafi mælst talsvert hærri fyrir tveimur vikum en eftir að hinir flokkarnir fóru að gefa í auglýsingafé þá hafi þau ekki getað haldið í við þau.
„Við ýttumst eiginlega út af sviðinu þá. Á meðan flokkarnir voru ekki að beita þessum auglýsingamætti sínum og við vorum í almennri stjórnmálaumræðu þá mældumst við vel. Sem nýtt framboð þá upplifðum við það að við duttum við út af sviðinu þegar hinir ríku flokkar hnykluðu vöðvana,“ segir Gunnar Smári.
Hann segist hræddur um að niðurstaða kosninganna verði sú að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn standi uppi sem sigurvegarar og það verði ríkisstjórn þessara flokka sem stjórni eftir kosningarnar.
„Þetta er fyrst og fremst hægri sveifla. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn græða á hruni Miðflokksins en hin frjálslynda miðja, Samfylking og Píratar eru ekki að sækja á þrátt fyrir að hafa verið í stjórnarandstöðu og ekki Viðreisn heldur,“ segir Gunnar Smári.