Gunnar Smári Egilsson, einn forvígismanna Sósíalistaflokks Íslands, reiðir hátt til höggs á Facebook í kvöld þegar hann segir Einar Bárðarson, eiginmann Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns Orku Náttúrunnar, virka á sig sem heldur „ógeðfelldur gaur“ sem slái um sig með „tengingum við fínimenni milli þess sem hann hefur í hótunum og reynir að hafa fé af fólki.“

Sjá einnig: Uppsögn Áslaugar Thelmu metin réttmæt

Þarna vísar Gunnar Smári til birtingar á tölvupósti Einars til forstjóra og starfsmannastjóra Orkuveitu Reykjavíkur í september þar sem hann krefst þess að eiginkona hans fái leiðréttingu sinna mála hjá fyrirtækinu og að þau hjónin hyggist leita liðsinnis Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, í baráttu sinni.

Sjá einnig: Vilja ekki birta úttektarkafla um sig

Gunnar Smári segir þennan tölvupóst Einars vera það „skrítnasta á Netinu í dag,“ og heldur síðan áfram: „Ég hef blessunarlega engin samskipti þurft að hafa við þennan mann.“ 

„Síðast sá ég hann á gangi Útvarpshússins leggja á ráðin við Stefán Einar, fyrrum formann VR, áður en sá kom með mér í Silfur Egils, þar sem Stefán Einar óð uppi með dylgjur og dónaskap. Það er auðsjáanlega sérgrein Einars Bárðarsonar.“

Sjá einnig: Tókust á í Silfrinu: „Ég borgaði þó laun Gunnar, ólíkt þér“

Þarna vísar Gunnar Smári greinilega til eftirminnilegarar snerru sem hann tók við Stefán Einar Stefánsson, fyrrverandi formann VR og blaðamanns á Morgunblaðinu, í Silfri Egils í lok síðasta mánaðar en þar mættust stálin stinn þegar Stefán Einar sagðist ólíkt Gunnari Smára hafa greitt starfsfólki sínu laun með vísan til Fréttatímans sem fór í þrot í ritstjóratíð Gunnars Smára. 

Þá brást Gunnar Smári við með þessum orðum: „Á að bjóða manni uppá svona? Ha! Ertu ekki sið­fræðingur? Ertu ekki sið­fræðingur? Þykist þú ekki vera sið­fræðingur.“