Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður og Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdarstjórnar Sósíalistaflokksins og oddviti í sama kjördæmi, mætast í umræðuþætti Páls Magnússonar á Hringbraut sem er á dagskrá í kvöld.
Óhætt er að segja að hiti hafi verið í mönnum í þættinum en Guðlaugur Þór fékk nóg af frammíköllum Gunnars Smára. Klippu úr þættinum má horfa á neðst í fréttinni.
Ójafn leikur geti útskýrt nýjar kannanir
Páll hóf þáttinn á því að spyrja þá félaga hvað valdi því að flokkar þeirra beggja hafi dalað lítillega í fylgiskönnunum eftir að hafa farið vel af stað. Gunnar Smári sagðist ekki kunna að ráða í það. Sósíalistaflokkurinn hafi fengið langstærsta hluta þess fylgis sem var á hreyfingu.
„Við erum náttúrulega að mæta flokkum sem eru óheyrilega ríkir, sem hafa tekið á kjörtímabilinu 2800 milljónir út úr ríkissjóði. Þegar aflið þeirra fer að birtast í auglýsingum úti um allt, á strætóskýlum, í öllum auglýsingatímum, þá kannski höfum við ekki alveg sömu möguleika á að keppa á þeim grundvelli.“
Hann segir að sér þyki pólitíkin hafi verið dregin til baka í fréttum. COVID-smit og riða séu frekar umfjöllunarefni fjölmiðla. „Sem veldur því náttúrulega að það er enginn vettvangur nema auglýsingarnar. Og ef að þjóðin sættir sig við það, þá verður það erfitt fyrir okkur. Við erum náttúrulega litli kallinn í þessari baráttu,“ segir Gunnar Smári.
Guðlaugur Þór segir áhugavert að heyra gamla fjölmiðlamenn kvarta undan fjölmiðlum. Aðspurður viðurkennir hann að fengi Sjálfstæðisflokkurinn 22 prósent fylgi eins og sumar kannanir hafi bent til, væri það ekki gæfulegt. Eina könnunin sem skipti máli sé hinsvegar á kjördag. Guðlaugur Þór segir áhugavert að heyra gamla fjölmiðlamenn kvarta undan fjölmiðlum.
„Styrkur Sjálfstæðisflokksins liggur alltaf í hinu sama, það er í hinum almenna flokksmanni,“ segir Guðlaugur. „Og það sem er ánægjulegt er það að fólk er mikið að vinna í því að hafa samband við fólk og koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Ég lít bara svo á að þetta séu skilaboð til okkar um að vinna enn harðar, því við viljum sjá betri útkomu heldur en kemur fram í þessum könnunum.“

Hitnaði í kolunum yfir umræðu um utanríkismálin
Því næst barst talið að utanríkismálum. Gunnar Smári segir Sósíalistaflokkinn andsnúinn veru Íslands í NATO. Sósíalistar séu á móti alþjóðavæðingu stórfyrirtækjanna, þar sem völd hafi verið flutt frá ríkjum og yfir til fyrirtækja. „Við erum hinsvegar fylgjandi allri alþjóðasamvinnu, klassískri alþjóðasamvinnu eins og þeirri sem byggði upp Sameinuðu þjóðirnar, Norðurlandaráð,“ segir Gunnar Smári.
Hann segir allt það góða sem gerst hafi í alþjóðamálum hafi gerst eftir seinna stríð. Sósíalistar styðji þjóðaratkvæðagreiðslu vegna ESB og NATO. Þá rifjar Gunnar Smári upp stuðning Íslands við Íraksstríðið. Íslendingar hafi alltaf litið á sig sem friðelskandi þjóð. „Það særði Íslendinga enda voru Íslendingar á móti því. Og mér finnst alveg sjálfsagt að við tökum það upp í almennri umræðu hvort við viljum taka þátt í hernaðarbandalagi eða mislukkuðum herleiðöngrum eins og í Afganistan sem Bandaríkin eru núna að fara frá með skottið á milli lappanna.“
Guðlaugur Þór sagði að orð Gunnars Smára væri gamalt vín á nýjum belgjum. „Ástæðan fyrir því að sósíalistaflokkar eru ekki lengur til almennt,“ segir Guðlaugur en Gunnar Smári skaut hér inn í að þannig flokkar væru við völd í Portúgal og hefðu komist inn í Noregi.
„Gunnar Smári! Hvers vegna grípurðu alltaf frammí fyrir mér?“ spyr Guðlaugur. „Þú ert að fara með rangt mál,“ svaraði Gunnar Smári þá. „Heyrðu! Ef ég gripi alltaf frammí fyrir þér þegar þú hafðir rangt fyrir þér, þá væri það stöðugt. Ég held það væri skynsamlegt að við höfum þá reglu að þú fáir að tala, og ég gefi þér tækifæri til þess. Síðan svari ég,“ sagði Guðlaugur Þór og Gunnar Smári samþykkti það.

Guðlaugur vísaði þá til sögunnar á bakvið stofnunar NATO í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. „Það hefur reynst mjög farsælt, því það hefur tryggt frið í álfunni og frið í okkar heimshluta. Þeir sem segja að við eigum að vera varnarlaus, þeir þurfa að svara því hvernig eigum við að sinna okkar vörnum, því það er almenn regla að allar þjóðir vilja halda vörð og öryggi fyrir sína þegna.“
Gunnar Smári svaraði þá og sagði það ekki hafa verið hugmyndina með stofnun NATO að fara inn í Afganistan og valda stórkostlegum skaða, sprengja fólk í brúðkaupsveislum með drónum, eða vera í stríði við fólk sem sé Íslendingum óviðkomandi.
„Það eru ekki viðbrögð við hernaði Þjóðverja 1939 að við eigum að vera í stöðugu stríði við fólk í Norður-Afríku, í Miðausturlöndum og langt úti um allan heim að elta hernaðarárásir Bandaríkjanna á saklaust fólk.“
Pólitík með Páli er á dagskrá Hringbrautar í kvöld kl. 19:30 og aftur kl. 21:30.