Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, greip harkalega til varna á Facebook um helgina í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins þar sem verktakagreiðslur Eflingar til eiginkonu hans voru gerðar tortryggilegar.

Sjá einnig: Saka Morgunblaðið um „staðlausar fullyrðingar“

Í varnarpóstum sínum á Facebook um helgina beindi Gunnar Smári meðal annars að spjótum sínum að Kristjönu Valgeirsdóttur, fjármálastjóra Eflingar, og gaf í skyn að hugsanlega væri ekki allt með felldu í störfum hennar og bókhaldi. Hún hefur brugðist við með því að fá sér lögfræðing og Gunnar Smári sér fram á talsverð leiðindi í því skaki sem ætla má að taki nú við.

„Æði held ég að þetta eigi eftir að verða leiðinlegt mál, að festast á milli deilu fjármálastjórans Eflingar og yfirmanna hennar,“ skrifar Gunnar Smári og gengur út frá því að lögfræðingur og ráðgjafar Kristjönu telji „augljóslega að hún fái betri starfslokasamning við Eflingu með því að teikna upp mynd af forystu Eflingar sem einhvers konar cult-söfnuði þar sem ég á að vera Raspútín á bak við tjöldin, en ekki upprisu grasrótarinnar gegn spilltri og aðgerðarlítilli forystu.“

Óskar forystu Eflingar góðs gengis

Gunnar Smári segist engin afskipti hafa af Eflingu og hafi ekki komið inn á skrifstofu félagsins í svo mörg ár að hann muni ekki einu sinni erindið sem hann átti við Sigurð Bessason, þáverandi formann.

„Fólkið í Eflingu, meirihlutinn sem félagsmenn sendu þangað inn til að umbylta félaginu, er augljóslega upp fyrir haus í baráttu við gagnbyltingaröflin, sem vilja halda félaginu eins og það var orðið eftir áratuga eyðileggingu fámennrar klíku sem náð hafði völdum í félaginu,“ skrifar Gunnar Smári þegar hann dregur upp átakalínur milli hins gamla og nýja.

Hann óskar síðan forystu eflingar góðs gengis í baráttunni við hin meintu afturhaldsöfl. „Mín ráð til hennar er vera trú erindi sínu, kröfu 80% félagsmanna um endurreisn félagsins og róttæka stefnubreytingu.“ Sjálfur muni hann heyra sínar orrustur til eflingar alþýðunni á öðrum vettvangi.

Hann hafi nýlega fengið „heimild fyrrum stjórnar Samtaka leigjenda á Íslandi til að vinna að endurreisn þess félags og það tókst vel. Fram undan eru aðrar orrustur, sem munu byggja upp hreyfingu alþýðunnar, byggja upp fleira forystufólk og á endanum kollvarpa auðvaldinu og þeim sem ganga erinda þess.“