Gunnar Smári Egils­son, fyrrum fjöl­miðla­maður og for­maður fram­kvæmda­stjórnar Sósíal­ista­flokks Ís­lands, gefur kost á sér á lista flokksins fyrir al­þingis­kosningarnar í haust. Flokkurinn ætlar að bjóða fram lista í öllum kjör­dæmum sem verða kynntir í byrjun ágúst.

„Það hefur verið skorað á mig og kjör­nefndin var að tala við mig og ég lofaði þeim að svara núna um helgina. Ef að þau geta notað mig þá er ég til,“ segir Gunnar Smári í sam­tali við RÚV.

Undan­farið hefur Sósíal­ista­flokkurinn verið að mælast með um fimm til sex prósenta fylgi í skoðana­könnunum og ætti því að ná mönnum á þing sam­kvæmt því. Þá segir Gunnar Smári það sæta tíðindum í ís­lenskri pólitík að stjórn­mála­flokkur sem hafi enn ekki kynnt fram­boðs­lista mælist með full­trúa á þingi. Hann rekur þetta meðal annars til þess að Sósíal­ismi sé í tísku meðal ungs fólks.

Listum verður stillt upp af sér­stakri kjör­nefnd en búist er við að hún ljúki störfum fyrstu vikuna í ágúst.

Gunnar Smári leiddi stofnun Sósíal­ista­flokksins árið 2017 en flokkurinn tók þó ekki þátt í al­þingis­kosningum sama ár. Flokkurinn bauð fram lista í sveitar­stjórnar­kosningunum 2018 í Kópa­vogi og Reykja­vík. Hann hlaut 3,2 prósent at­kvæða í Kópa­vogi og engan mann en 6,4 prósent í Reykja­vík og einn borgar­full­trúa.