Víkingaforinginn og Reykjavíkurjarlinn, eins og hann kallaði sig stundum, Gunnar Víking Ólafsson er látinn eftir erfiða og vonlitla baráttu, sem hann háði af aðdáunarverðu ærðuleysi, við krabbamein í heila. Gunnar fæddist 4. mars 1961 og var því rétt nýorðinn 59 ára gamall þegar hann lést.

Gunnar Víking ræddi veikindi sín og undirbúninginn fyrir óhjákvæmileg endalokin í viðtalið við Fréttablaðið í júní í fyrra, hálfu ári eftir að æxli fannst í heila hans fyrir hálfgerða tilviljun.

„Fólk er stundum með æxli, misstór, án þess að hafa hugmynd um það en núna hef ég tíma og er búinn að gera ýmislegt. Ég er búinn að hreinsa verkfæri, panta legsteininn og er að fara að smíða líkkistuna,“ sagði Gunnar við Fréttablaðið í fyrrasumar, þakklátur fyrir að fá dýrmætan tíma til þess að búa sig undir sinn hinsta bardaga þar sem herklæði hans, sverð og skjöldur gögnuðust honum ekki.

Sannur hersir og jarl

Sveinn Hjörtur Guðfinsson, æskuvinur Gunnars og víkingafélagi, minnist síns fallna félaga á Facebook: „Það er þyngra en tárum taki að kveðja góðan vin sinn, sérstaklega í því ástandi sem nú er, en það er dýrmætt um leið að hafa fengið að vera með Gunnari síðustu sporin þó þung hafi verið.“

Gunnar sótti skreytinguna á leg­steininn 1200 ár aftur til víkinga­menninguna sem var honum svo kær. „Þetta eru dætur mínar sitt­hvoru­megin við mig sem passa mig,“ sagði hann um englana tvo þegar Frétta­blaðið heim­sótti hann í sumar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sveinn Hjörtur heldur áfram og grípur til viðeigandi líkingamáls þegar hann lýsir æðruleysi vinar sína sem „sannur hersir og jarl barðist Gunnar við veikindi sín með raunsæjum hætti, kjark og miklu æðruleysi. Hann tókst á við verkefnið sem beið hans. Slíkan kjark hefur sterkur maður.“

Þegar Gunnar Víking ræddi við Fréttablaðið í júní sagði hann dauðadóminn þegar hafa verið kveðinn upp og læknar teldu hann í mesta lagi eiga ár eftir ólifað. Eins og sönnum víkingi sæmdi brá hann sér hvorki við sár né bana og var byrjaður að búa sig undir dauðann. „Ég á kannski ár eftir. Það er bara svoleiðis þannig að ég er búinn að panta legsteininn. Hann er eiginlega tilbúinn hjá S. Helgason,“ sagði Gunnar þá.

Minn kæri æskuvinur Gunnar Víking Ólafsson er látinn eftir erfið veikindi. Það er þyngra en tárum taki að kveðja góðan...

Posted by Sveinn Hjortur Gudfinnsson on Tuesday, April 7, 2020

Var góður maður og faðir

Gunnar var starfaði meðal annars sem lögregluþjónn og Sveinn Hjörtur segir hann hafa verið farsælan í því starfi. „Hann var góður maður og góður faðir. Gunnar taldi það vera mikla gæfu að eignast dætur sínar og var stoltur af þeim fyrir metnað sinn í námi og hugsjón þeirra til lífsins. Gunnar var mjög bóngóður og skipti sjaldan skapi. Hann taldi gildi fjölskyldunnar mikilvæg og það að vera til staðar fyrir fólkið sitt.“

Þá heldur Sveinn Hjörtur því til haga að Gunnar hafi verið ódeigur málafylgjumaður og hafi verið iðinn við að kynna fornsögur Íslendinga, menningu og sögu víkinga á erlendri grundu.

„Gunni vinur minn var sannur víkingur. Frægð hans erlendis var slík að eftir honum var tekið. Gunnar bar af í glæsileika sínum og var höfðingi. Hann vissi leik sinn og gerði sitt með bestu leið og þeirri glæsilegustu.“