Gunnar Karl Haraldsson, framhaldsskólakennaranemi og baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks, lést í gærmorgun, 26 ára að aldri. Hann lést eftir baráttu við krabbamein en í lok síðasta árs greindist hann með illkynja æxli í kviðarholi. Vísir greindi frá andláti Gunnars.

Gunnar Karl var aðeins átta mánaða þegar hann greindist með taugasjúkdóminn neurofibromatosis 1 (NF1), eða taugatrefjaæxlager, og lagðist sjúkdómurinn þungt á hann. Hann hafði þurft að fara í ýmsar aðgerðir á fótum, hrygg og mjöðm, og þegar hann var 17 ára var vinstri fótur tekinn af við hné.

Í desember 2018 fékk hann síðan blóðtappa í lungun og fór í hjartastopp í 26 mínútur. „Það er mikilvægt að missa ekki sjónar á því að lífið er núna. Ég held bara mínu striki,“ sagði Gunnar í viðtali við Fréttablaðið í mars 2019.

Lét erfiðleikana ekki stöðva sig

Gunnar tók hlutskiptum sínum með æðruleysi og var oftar en ekki á fleygiferð. Hann var virkur í stúdentapólitík, stoltur af heimabænum í Vestmannaeyjum, og skrifaði pistla þar sem kom meðal annars inn á aðgengismál fatlaðra einstaklinga.

Hann útskrifaðist að lokum með BA gráðu í tómstundar- og félagsmálafræði frá HÍ.

Allt það mótlæti sem Gunnar Karl glímdi við kom ekki í veg fyrir jákvæðni hans og brosmildi sem voru eitt hans helsta einkenni. Hann var mjög vinamargur og lét erfiðleikana ekki stöðva sig. Hann kunni ekki að meta neina vorkunn eða samúð heldur minnti fólk á að hann væri venjuleg manneskja.