Gunnar Kristinn Þórðarson, oddviti Karlalistans í síðustu sveitarstjórnarkosningum og einn af forsvarsmönnum Feðrahreyfingarinnar, hefur lagt fram kæru á hendur Elísabetu Ýr Atladóttur og Þóreyjar Guðmundsdóttur. Hann telur þær hafa brotið gegn sér með færslum og athugasemdum á lokuðum Facebook-hóp sem ber nafnið „Aktivistar gegn nauðgunarmenningu“.

„Skipulagðar ofsóknir“

Þann 10. mars síðastliðin birti Elísabet, stjórnandi síðunnar, færslu þar sem óskað er eftir „eins mikið af upplýsingum um forsvarsmenn [Feðrahreyfingarinnar]“. Segir að þráðurinn sé til þess að safna upplýsingum um „hverskonar menn“ stýra Feðrahreyfingunni og hafa þannig „vopn gegn þeim þegar þeir beita áframhaldandi óréttlæti gegn barnsmæðrum sínum“. Facebook-hópurinn sem um ræðir telur um 2500 manns, og telur Gunnar að Elísabet hafi þar með hvatt hópmeðlimi til refsiverðarháttsemi sem felst í því að safna upplýsingum um einkamálefni einstaklinga. „Síðustjórinn hvetur þarna til þess að þau safni eins miklum skít á forsvarsmenn feðrahreyfingarinnar og mögulegt er,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið í kvöld. „Þetta eru skipulagðar ofsóknir gegn mönnum sem berjast fyrir foreldrajafnrétti.“

Við þráðinn gerir Þórey Guðmundsdóttir, prestur og félagsráðgjafi, athugasemd. Segir hún að forsvarsmenn Feðrahreyfingarinnar hafi skrifað um sig í Kvennablaðið, hringt í sig óundirbúna og rætt persónu sína í útvarpsþáttum. Þegar hún þylur upp nöfn þeirra menn sem hún vísar til lætur hún fylgja með, þegar hún talar um Gunnar Kristinn, að hann hafi eytt meirihluta uppvaxtar ára sinna á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Gunnar segir þetta vera einhver grófustu meiðyrði sem fyrirfinnast í kommentakerfum. „Þetta hefur verið leyndarmál í minni fjölskyldu, sem enginn vissi af. Ég lít á þetta sem miklu meira en einhverskonar meiðyrði eða dónaskap,“ segir Gunnar. „Þetta er eins mikil aðför að mannhelgi og hægt er og í raun aðför gegn þeim unglingsdrengjum sem spyrja sig hvort að svona þjónusta [geðheilbrigðisþjónusta á BUGL, innsk. blaðam.] muni elta þá fram á fullorðinsár. Ég lenti í grófu einelti í þrjú ár vegna Tourettes-heilkenni sem var þá lítt þekkt og þurfti að leggjast þarna inn þegar ég var fjórtán ára gamall. Þetta eru bara grófustu meiðyrði.“

Aðspurður segir hann að þó hann hafi tekið þátt í stjórnmálum og opinberri umræðu sé það ekki tilefni fyrir slíkar aðdróttanir. „Þetta er persónuleg aðför en ekki pólitískt,“ segir hann. „Þórey var starfandi prestur á Austfjörðum þegar ég bjór þar. Ég óska eftir rannsókn á því hvernig hún kemst yfir þessar upplýsingar og vil að hún sé gerð ábyrgð fyrir ummælum sínum,“ bætir Gunnar við. „Ef þetta verður látið óátalið geta börn og unglingar sem velta því fyrir sér hvort þeir eigi að sækja í geðheilbrigðisþjónustu átt von á því að svona einstaklingar í embættum geti dregið svona fram til meiða mannorð þeirra í opinberri umræðu.“

Segist aldrei hafa brotið þagnarskyldu

Fréttablaðið náði einnig tali af Þóreyju. Hún segist aldrei hafa brotið gegn þagnarskyldu lögum samkvæmt. „Ég hef aldrei brotið neina þagnaskyldu gegn þessum manni og hef ekkert haft með hann að gera í neinu ábyrgðarstarfi eða embætti. Hann hefur þó eltihrellt mig síðan 2005 og skrifað og haft um munn ósannindi um mig á fleiri en einum stað,“ sagði Þórey í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurð vill hún ekki tjá sig um hvort hún sjái eftir ummælunum, eða hvort henni finnist þau viðeigandi í opinberri umræðu. „Ég hef þessar upplýsingar úr árgangi mínum í Menntaskólanum í Reykjavík, frá fleiri en einum einstaklingi — flestir þeirra karlar,“ segir hún þó, aðspurð hvaðan hún hefur upplýsingar um vistun Gunnars á BUGL.

Partur af venjulegri heilbrigðisþjónustu

Elísabet Ýr segist lítið geta tjáð sig um kæruna gegn sér. „Ég heyrði bara af þessu í morgun og hef ekkert heyrt frá lögreglunni. Ég veit ekki hvað ég á að hafa gert rangt,“ segir Elísabet í samtali við Fréttablaðið. „Mér finnst þetta frekar undarlegur fókus sem hann er með, hann ákveður að targeta okkur af einhverjum ástæðum,“ bætir hún við. Aðspurð segir hún að tilætlunin með færslu sinni hafi ekki verið að draga upplýsingar um heilbrigði mannanna í sviðsljósið. „Það er fullt af fólki sem fer á BUGL, þetta er bara partur af venjulegri heilbrigðisþjónustu. Ég get ekki svarað fyrir athugasemdir Þóreyjar en ekkert af þessu snérist um BUGL.“

Hún segir þó að hópurinn hafi aldrei talið 2500 manns, heldur rétt rúmlega 2400 þegar mest lét. Nú séu meðlimir 1116 þar sem brugðist hafi verið við trúnaðarbrestum innan hópsins.