Gunnar Tryggvason, aðstoðarhafnarstjóri Faxaflóahafna íhugar að gefa kost á sér til forystu á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. „Jú það hafa margir skorað á mig að gefa kost á mér og ég hef fallist á að íhuga það en mun taka mér þann frest sem ég hef til að gera þetta upp við mig,“ segir Gunnar.

Gunnar er Vestfirðingur og er verkfræðingur að mennt. Hann var aðstoðarmaður Oddnýjar Harðardóttur þegar hún var fjármálaráðherra á árunum 2011 og 2012.

Gylfi Þór Gíslason, varðstjóri á Vestfjörðum, tilkynnti í gær að hann gæfi kost á sér í 1. til 2. sæti fyrir flokkinn í kjördæminu. Segist hann vilja bæta kjör íbúa á landsbyggðinni, efla löggæslu og taka á fíkniefnaneyslu í landinu, en ekki með afglæpavæðingu.