Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, notaði skopmynd Halldórs Baldurssonar úr Fréttablaði gærdagsins til þess að koma höggi á Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, og koma um leið á framfæri efasemdum sínum um heiðarleika síns gamla Framsóknarflokksbróður.

Mynd Halldórs sýnir Ásmund Einar í hlaðinu á kúabúi föður síns með „nýju vini“ sína, menn í „sérsveit gegn launasvikum.“ Gunnar Bragi deildi myndinni með þessum orðum: „Fréttablaðið lýsir heiðarleika þessa manns ágætlega. En það gerði DV líka ágætlega 2016,“ og vísar í leið til umfjöllunar DV um verkamann sem var hlunnfarinn á áðurnefndu kúabúi.

„Þetta er náttúrlega bara yfirklór að benda á pabba sinn. Það vita það allir sem til þekkja að Ásmundur Einar er náttúrlega aðal driffjöðurin í þessum búrekstri öllum saman,“ segir Gunnar Bragi í samtali við Fréttablaðið. „Það getur vel verið að pabbi hans sé skrifaður fyrir þessu en þetta er náttúrlega bara yfirklór af hans hálfu.“

Kann ekki að meta vinnubrögð ráðherrans

Launamálið á kúabúi Daða Einarssonar var rifjað upp um í síðustu viku í kjölfar umfjöllunar Kveiks um vinnuþrælkun á erlendu verkafólki. Þegar gengið var á Ásmund Einar vegna þessa í Silfrinu á RÚV á sunnudag vísaði hann því bókstaflega til föðurhúsanna og sagði það vera föður hans að svara fyrir málið.

Gunnar Bragi gefur lítið fyrir það „yfirklór“ og telur skopteiknarann komast nærri kjarnanum. „Halldór nær oft á tíðum algerlega að koma með innihaldið sem allir eru að hugsa en fáir segja,“ segir Gunnar Bragi.

„Það er líka svo óheppilegt eða heppilegt að á sama tíma er hann með grein fyrir neðan myndina óbeint um efnisinnihald myndarinnar þannig að þetta er allt saman svolítið broslegt, finnst mér,“ segir Gunnar Bragi og vísar til aðsendrar greinar Ásmundar Einars á sömu blaðsíðu en þar fjallar hann um Kveik og segir þáttinn ekki hafa látið neinn ósnortinn.

Vík milli vina

Aðspurður segir Gunnar Bragi þá Ásmund Einar hafa unnið ágætlega saman á meðan þeir voru báðir í Framsóknarflokknum en það sé liðin tíð. „Við vorum ágætis samstarfsfélagar um tíma en síðan bara skildu leiðir og ég kann ekki að meta þau vinnubrögð sem Ásmundur Einar viðhefur í sínum stjórnmálum.“

Sjá einnig: Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

Gunnar Bragi fer heldur ekki leynt með aðdáun sína á Halldóri og teikningum hans og segist taka því létt þegar hann sjálfur verður fyrir beittum penslum listamannsins.

„Halldór teiknað margar skemmtilegar myndir af mér og ég á þær allar. Ég hló svo mikið af þessu,“ segir þingmaðurinn sem fékk mynd Halldórs lánaða til þess að senda sínum gamla flokksbróður pólitíska eiturör.