Miðflokksþingmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson vildi ekki fara út í smáatriði þegar Arnþrúður Karlsdóttir spurði hann í viðtali á Útvarpi Sögu í dag hvað nákvæmlega Lilja Alfreðsdóttir hefði sagt við hann þegar hún vék að honum orði í tvígang á þingi í gær.

Gunnar Bragi sagði hins vegar að honum þætti vænt um Lilju, ágæta vinkonu sína, og fullyrti að þau væru búin að gera málið upp sín á milli.

Sjá einnig: Þetta sagði Lilja við Gunnar Braga

Arnþrúður byrjaði á að ræða vægast sagt umdeilda endurkomu Gunnars Braga og Bergþórs Ólasonar og sagði talað um að þeir hefðu átt að gera boð á undan sér svo fólk hefði getað undirbúið sig.

„Þetta er nú svolítið sérstök nálgun að þjóðkjörnir þingmenn skuli þurfa að láta pólitíska andstæðinga sína vita þegar þeir koma inn á þing og borið það við að þeir sem að um var rætt þetta vonda kvöld hafi brugðið við að sjá okkur,“ svaraði Gunnar Bragi og bætti við að viðkomandi hljóti að hafa gert sér grein fyrir því að einhvern tímann myndu þeir félagar snúa aftur til þings.

Þá velti hann fyrir sér hvort andstæðingar þeirra hefðu viljað fá fyrirvara til þess að undirbúa „einhver læti“ eða mótmæli á þinginu. „Það er nú þannig að okkur ber engin skylda til að láta einhvern vita og maður veltir fyrir sér ef að andstæðingar okkar hefðu nú fengið viku fyrirvara hvað hefðu þeir planað eitthvað? Hefðu þeir viljað plana einhver læti í þinginu? Mótmæli? Eða hvers vegna vildu þau fyrirvara?“

Skilur þó Lilju

Gunnar Bragi sagðist þó hins vegar skilja viðbrögð „ágætar vinkonu“ sinnar, Lilju Alfreðsdóttur. Hann væri búinn að starfa lengi með henni og hefði kannski átt að tala við hana. „En við leysum það bara okkar á milli og erum búin að því.“

Arnþrúður spurði þá í framhaldinu hverju Lilja hefði hvíslað að honum þegar hún gekk að honum í tvígang. „Hún er nú sjálf búin að segja frá því hvað það var og það var bara það að henni hefði semsagt brugðið að sjá okkur þarna,“ svaraði Gunnar Bragi.

Sjá einnig: Lilja gekk úr þingsal eftir orðaskipti við Gunnar Braga

„Og þess vegna segi ég það að hafandi þekkt Lilju þetta langan tíma hefði maður kannski átt að segja henni þetta. En almennt þá kemur það andstæðingum í pólitík ekkert við hvenær við komum inn á þing. En mér þykir nú vænt um Lilju þannig að ég skil hennar viðbrögð en ekki þessi skrýtnu viðbrögð frá öðrum flokkum þarna inni. „Hvað er um að vera?“

„Ég veit ekkert um það. Hún verður bara að svara fyrir það,“ svaraði Gunnar Bragi og vék síðan talinu að Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis og ítrekaði að umfjöllun hans um Klaustursmálið á þingi hefði orðið til þess að þeir Bergþór fundu sig knúna til þess að mæta aftur til starfa „til að geta borið hönd yfir höfuð okkar fyrst hann ákveður að efna til þessara pólitísku réttarhalda.“

Hægt er að hlusta á viðtal Arnþrúðar við Gunnar Braga á vef Útvarps Sögu.