Siðanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þingmennirnir Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson hafi brotið siðareglur með ummælum sínum á Klaustri 20. nóvember á síðasta ári, samkvæmt frétt Morgunblaðsins.

Morgunblaðið segist hafa álit siðanefndar undir höndum og segir niðurstöðu álitsins vera að Bergþór og Gunnar Bragi, þingmenn úr Miðflokki, hafi brotið siðareglur alþingismanna með ummælum sínum. Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samræðunum, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, eru ekki taldir hafa brotið siðareglur.

Tveggja manna forsætisnefnd sem var skipuð til að fara með málið fjallaði um það í fyrradag og kemur svo saman aftur í dag til að afgreiða það.

Siðanefnd fór yfir ummæli Bergþórs um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmann Samfylkingarinnar, og Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, sem og ummæli Gunnars Braga um Albertínu, Lilju og Ragnheiði Runólfsdóttur.

Samkvæmt álitinu brutu Bergþór og Gunnar Bragi siðareglur þar sem segir að alþingismenn skuli leggja sig fram um að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hafna hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu. Samkvæmt reglunum eiga alþingismenn ekki heldur að kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess. Í álitinu stendur að ummæli Bergþórs og Gunnars Braga hafið verið „öll af sömu rótinni sprottin. Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt.“

Sigmundur Davíð, Anna Kolbrún, Gunnar Bragi og Bergþór sendu forsætisnefnd sameiginlegt bréf þar sem þau gagnrýna vinnubrögð og niðurstöðu siðanefndar. Þau gagnrýndu að byggt væri á ólöglegum upptökum og gerðu ýmsar aðrar athugasemdir við meðferð málsins. Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti sendu ekki inn andmæli.