Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar fréttaflutnings af Klaustursupptökunum. Þar segist hann hafa sýnt mikið dómgreindarleysi og haft uppi orð sem voru engum sæmandi.

„Það var mér mikið áfall að sjá hvaða orðfæri ég viðhafði og mun taka mig tíma að vinna úr því með vinum og fjölskyldu. Ég harma að hafa sært samstarfsfélaga mína og fleiri og tek ábyrgð á hegðun minni,“ ritar Gunnar Bragi.  

„Vil ég þó segja að mistök gerum við manneskjurnar víst og er öllu jafna auðveldara að dæma en að fyrirgefa. „Sá yðar er syndlaus er kasti fyrsta steininum“ Ég mun hafa það í huga hér eftir og hvet ykkur til þess sama. Ég vona að hlutaðeigandi fyrirgefi mér þessa hegðun en vegna hennar hef ég ákveðið að taka mér leyfi frá þingstörfum

Gunnar Bragi er kominn í leyfi frá þingstörfum. Una María Óskarsdóttir varaþingmaður, mun að öllu óbreyttu taka við sem þingmaður Miðflokksins þar til Gunnar Bragi snýr aftur. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, sendi í dag bréf til flokksmanna Miðflokksins þar sem hann greindi frá því að Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, sem einnig er þingmaður Miðflokksins, hefðu vikið tímabundið frá þingmennsku.

Þar sagði Sigmundur þó að slík samnæti, líkt og átti sér stað fyrr í nóvember þegar sex þingmenn sátu á sumbli og fóru ófögrum orðum um ýmsa aðila, hefðu átt sér stað lengi. Ég hef hlustað á þingmenn flestra flokka úthúða flokksfélögum sínum og nota orðbragð sem í sumum, jafnvel mörgum, tilvikum er enn grófara en það sem birst hefur að undanförnu. Þingmenn af báðum kynjum eiga þar í hlut og fórnarlömbin eru auk þess af báðum kynjum.

Yfirlýsing Gunnars Braga í heild sinni:

Fyrir tíu dögum sýndi ég mikið dómgreindarleysi og hafði uppi orð sem eru engum sæmandi. Það var mér mikið áfall að sjá hvaða orðfæri ég viðhafði og mun taka mig tíma að vinna úr því með vinum og fjölskyldu. Ég harma að hafa sært samstarfsfélaga mína og fleiri og tek ábyrgð á hegðun minni. Vil ég þó segja að mistök gerum við manneskjurnar víst og er öllu jafna auðveldara að dæma en að fyrirgefa. „Sá yðar er syndlaus er kasti fyrsta steininum“ Ég mun hafa það í huga hér eftir og hvet ykkur til þess sama.

Ég vona að hlutaðeigandi fyrirgefi mér þessa hegðun en vegna hennar hef ég ákveðið að taka mér leyfi frá þingstörfum.