Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, er farinn í leyfi frá þingstörfum. Formönnum og þingflokksformönnum flokka á Alþingi var send tilkynning þess efnis í dag.

Ekki náðist í Gunnar Braga við vinnslu fréttarinnar. Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, varðist fregna um leyfi Gunnars Braga frá þingstörfum en sagði að það yrði væntanlega tilkynnt um breytingar, ef þær yrðu, næsta mánudag þegar varamaður myndi þá taka við af Gunnari. Hann sagðist ekki vita hvers vegna Gunnar Bragi ætlaði í leyfi frá þingstörfum.

Ekki er langt síðan Gunnar Bragi sneri aftur á þing eftir Klaustursmálið svokallaða. Hann fór í leyfi frá þingstörfum, ásamt öðrum þingmanni flokksins Bergþóri Ólasyni í nóvember en þeir sneru báðir aftur á þing þann 24. janúar á þessu ári.