Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi ráðherra, ætlar ekki að bjóða fram í áframhaldandi þingsetu fyrir Miðflokkinn í kosningunum í haust. Frá þessu greinir Gunnar Bragi í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Þar segist hann kveðja stjórnmálin sáttur en hann hefur setið á þingi í tólf ár.

Gunnar Bragi fer yfir ferill sinn á þingi og þann tíma þegar hann yfirgaf Framsóknarflokkinn og stofnaði Miðflokkinn með öðrum. Hann segist kveðja sáttur en er ekki viss hvað hann ætli að gera næst.

„Nei, ég ætla að hætta og þá hætti ég alveg. En svo veit maður auðvitað ekki hvað gerist síðar á lífsleiðinni. Kannski þessi baktería taki sig upp síðar, hver veit? En ég er 53 ára gamall og stóð frammi fyrir spurningunni hvort ég vildi halda áfram í þessu sama eða gera eitthvað nýtt. Ég valdi að gera eitthvað nýtt,“ segir Gunnar Bragi.