Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, sendir umhverfissóðum tóninn í færslu á Facebook-síðu Forseta Íslands. Með færslunni er mynd af sorpi við vegkant og Bessastaði í baksýn.

„Á björtum morgni er fallegt á Bessastöðum,“ skrifar forsetinn í upphafi færslunnar. „Þess vegna er synd hversu mikið rusl má finna ef vel er að gáð. Sumt fýkur hingað eða rekur á fjörur með veðri og vindum. Öðru fleygir fólk greinilega bara úr bílum eða nennir ekki að taka heim með sér eftir göngutúra,“ heldur hann svo áfram.

Guðni vonar að þetta sé einungis lítill minnihluti fólks. „En sá hópur skilur þó eftir sig sígarettustubba, matarumbúðir, tómar flöskur og annað úrkast,“ skrifar forsetinn. Loks undirstrikar hann að það sé ekki meðal embættisskyldna forsetans, né annarra, að hreinsa upp eftir ruslaralýð. „Þú þarna úti: Það á ekki að vera hlutverk mitt eða annarra að hreinsa upp eftir þig, hvorki nú né í framtíðinni.“

Guðni virðist hafa sívaxandi áhuga á umhverfisvernd, en Fréttablaðið greindi á föstudaginn frá fallegu bréfi sem forsetinn ritaði ungri stúlku sem hafði áhyggjur af velferð dýra.