Forseta Íslands, Guðna Th Jóhannessyni, ofbýður ummæli þingmanna Miðflokksins og fyrrverandi þingmanna Flokk fólksins sem fjölmiðlar hafa fjallað um undanfarna daga. Þetta kemur fram í umræðum í þættinum Silfrinu á RÚV.

„Auðvitað ofbauð mér eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði. Orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin. Þetta er ekki leiðin til þess að auka traust landsmanna á Alþingi, að viðhafa svona orðfæri, sem er til merkis um einhvern undirliggjandi vanda. Manni ofbauð, það er ekkert flóknara en það.“

Sjá einnig: Góður vitnisburður um eitraða karlmennsku

Aðspurður hvernig sé hægt að endurreisa traust á Alþingi segir Guðni að Ísland sé ekki samfélag þar sem forsetinn geti sagt þingmönnum fyrir verkum, ráðið þá eða rekið. Það sé í valdi kjósenda.

„Og svo er samviskan það vald sem frjálsir menn hlýða. Þetta er eitt af okkar eilífðarverkefnum daginn út og daginn inn; að hugsa um það hvernig við getum orðið að liði. Hvernig við getum sagt við okkur að morgni dags: „Nú ætla ég að standa mig í vinnunni.“ Og svo að kvöldi: „Þetta var nú góður dagur.“ Sérstaklega fyrir okkur sem erum í þjóðkjörnum stöðum. En ég held að það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall og segja öðrum til syndanna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregðast við.“