„Ég vona að þú sjáir villu þíns vegar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra í bréfi sem hann hefur póstlagt til trúarleiðtogans.

Tilefnið eru orð Frans páfa um að það sé í tísku að vera samkynhneigður. Guðmundur bendir páfa á að hvorki kynhneigð né kynferðisvitund sé valkvæð. Samkynhneigð sé ekki tískufyrirbrigði sem fólk skipti út með nýrri vorlínu. „Við erum bara svona.“

Sjá einnig: Enginn staður fyrir samkynhneigða presta

Guðmundur Ingi, sem er samkynhneigður, lýsir í bréfinu yfir vonbrigðum með að maður í hans stöðu skuli gefa út að ekkert rými sé fyrir samkynhneigða í röðum presta, munka og nunna.

Hann segir að það veiki kirkjuna að úthýsa samkynhneigðum. Fjölbreytni sé lykillinn að því að kirkjan geti sinnt skyldum sínum, sem sé að boða ást og frið. „Þú gerir stór mistök með því að útiloka framlag hinsegin fólks. Eftir því sem þú hefur fjölbreyttari hóp í vinnu hjá þér, eru meiri líkur á að kirkjan þín geti betur rækt hlutverk sitt – að vera boðberi kærleika, friðar og ástar. Það verður meiri skilningur innan hennar.“

Í niðurlagi bréfsins segir Guðmundur Ingi páfa að orðum hans fylgi mikil ábyrgð og að hann vonist til að hann snúist í afstöðu sinni. „Kærar kveðjur frá Íslandi.“

Guðmundur Ingi hefur birt bréfið í íslenskri þýðingu á Facebook: