Guðmundi Inga Þóroddssyni, formanni Afstöðu, verður ekki boðið sæti á framboðslistum Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hann staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Ástæðuna segir hann meinta óvissu um kjörgengi hans.

„Ég skil afstöðu uppstillingarnefndar þótt ég sé algerlega ósammála ályktun hennar um kjörgengið,“ segir Guðmundur, sem losnaði við ökklaband í ágúst í fyrra eftir afplánun í fangelsi. Óflekkað mannorð er skilyrði kjörgengis, en Guðmundur segir lögin ekki skýr um lok afplánunar. Hugtökum um reynslulausn og reynslutíma sé ruglað saman en sjálfur lýkur Guðmundur reynslutíma eftir rúm tvö ár. Hann telur sig hafa lokið afplánun.

„Það eru mikilvæg mannréttindi einstaklinga í lýðræðisríki að bjóða sig fram í kosningum. Takmarkanir á þeim rétti þurfa að vera málefnalegar, skýrar og afdráttarlausar,“ segir Guðmundur. Hann segist þó alveg halda ró sinni. „Ég ætla ekki að vera með neinn uppsteyt, eins og annað og virðulegra fólk í flokknum hefur leyft sér undanfarna daga, þótt þetta valdi mér auðvitað vonbrigðum,“ segir Guðmundur og telur betrunarstarf sitt hafa komið að miklu gagni að undanförnu. „Ég hef ekki upplifað svona andrúmsloft síðan ég losnaði af Hrauninu fyrir mörgum árum.“

„Ég hef ekki upplifað svona andrúmsloft síðan ég losnaði af Hrauninu fyrir mörgum árum.“

Guðmundur naut töluverðrar hylli í skoðanakönnun meðal flokksmanna fyrir skömmu og var einn þriggja karlmanna meðal tíu vinsælustu frambjóðenda. Hann segist ekki hafa tekið ákvarðanir lengra fram í tímann en um mætingu á fund flokksfélagsins í Reykjavík eftir hádegi í dag, þar sem framboðslistar í Reykjavík verða bornir upp til samþykktar.