Guðmundur Benedikt Baldvinsson, sem leitað var víða síðustu daga, fannst látinn á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá þessu í fréttatilkynningu, en ekki hafði sést til Guðmundar frá því á föstudaginn. 

Allt tiltækt björgunarsveitarfólk á höfuðborgarsvæðinu var boðað út síðdegis í gær vegna vísbendinga sem borist höfðu lögreglu. Þegar mest var leituðu hátt í 250 björgunarsveitarmenn að Guðmundi í efri byggðum Reykjavíkur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir Guðmundi á mánudaginn, en ekki hafði sést til hans síðan á föstudagskvöld. Síðla í gærkvöldi var tilkynnt að hlé hefði verið gert á leitinni en varðist lögregla allra fregna af málinu. Í fréttatilkynningu frá lögreglu, sem send var út fyrir stuttu, kemur fram að ekki sé talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Guðmundur, sem var 55 ára, lætur eftir sig tvö börn.

Aðstandendur hans vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem veittu aðstoð við leitina að Guðmundi.

Fréttin hefur verið uppfærð.