Þúsundir mótmælenda flykktust enn og aftur á götur borga víðsvegar um Frakkland í gulum vestum og voru tugir handteknir og víða kom til átaka á milli mótmælenda og lögreglu en talið er að fleiri hafi verið í röðum mótmælenda nú heldur en fyrir viku síðan, eða rúmlega 84 þúsund um landið allt. Er þetta níunda helgin í röð sem að mótmælt er í landinu en fyrstu mótmælin fóru fram þann 17. nóvember síðastliðinn.

Eldsneytishækkanir voru ástæða þess að fyrst var gripið til umræddra mótmæla en einungis eru örfáar vikur síðan Emmanuel Macron, Frakklandsforseti,hélt sjónvarpsávarp þar sem hann lofaði hækkun lágmarkslauna vegna mótmælanna í von um að friða mótmælendur. Í umfjöllun BBC kemur fram að hækkandi framfærslukostnaður sé meðal helstu ástæða þess að mótmælin endurtaka sig viku eftir viku.

Rúmlega 156 mótmælendur voru handteknir í höfuðborginni en átta þúsund manns mótmæltu í borginni sem er meira en frá því í síðustu viku þegar lögreglan taldi 3500 manns hafa mótmælt. 244 manns voru handteknir á landsvísu og voru áttatíu þúsund lögreglumann kallaðir út vegna þeirra. 

Engir bílar voru hins vegar brenndir og ekki var brotist inn í neinar búðir í dag líkt og tíðkast hefur á undanförnum vikum. Ástandið varð raunar svo slæmt á tímabili að ríkisstjórn Macron íhugaði að lýsa yfir neyðarástandi í landinu.

Frakklandsforseti hefur þó ekki gefist upp á að kveða niður mótmælin og hefur hann tilkynnt að ríkisstjórn hans skipuleggji nú þjóðfundi víðsvegar um Frakkland í öllum helstu ráðhúsum landsins og á internetinu þar sem íbúum gefst kostur á að segja skoðanir sínar og ræða skattamál, umhverfismál, umbætur á stofnanakerfinu og borgararéttindi.