Þrátt fyrir að veðrið í dag byrji á rólegu nótunum stendur það ekki yfir lengi. Veðrið er órólegt um þessar mundir og verður áfram á næstunni samkvæmt Veðurstofu Íslands.

„Það er þó ekki óeðlilegt, enda erum við nú einmitt stödd á þeim árstíma þar sem óveður eru algengust,“ segir meðal annars í hugleiðingum veðurfræðings.

Í dag gengur í suðaustan og sunnan hvassviðri eða storm. Gera má ráð fyrir að úrkoma fylgi sem byrjar jafnvel sem slydda en færist síðan yfir í rigningu og það hlýnar með sunnanáttinni.

Í kvöld og nótt snýst síðan vindur til suðvestanáttar og það verður hvasst og það kólnar með éljum.

Nú er það gult

Gular viðvaranir taka í gildi á mest öllu landinu í kringum hádegi í dag. Það á við um: höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Suðausturland og Miðhálendi.

Um hádegisbil verður suðaustan hvassviðri eða stormur og talsverð rigning. Búist er við um 15 til 23 metrum á sekúndu, sums staðar 18 til 25 metrum.

Fólki er bent á að huga að niðurföllum og ganga frá lausum munum. Þá má gera ráð fyrir snörpum vindhviðum við fjöll sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur, sérstaklega ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Rússneska febrúarlægðin

Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson segir lægðina í dag muni fara hratt yfir og dýpka ört á sama tíma.

„Við sleppum ekki alltaf svo vel í þessari rússnesku febrúarlægða-rúllettu við landið!“ sagði Einar um lægðina á Facebook-síðu sinni í gær.

Gul viðvörun er á mest öllu landinu.
Skjáskot frá Veðurstofu Íslands

Illfærir vegir og lokanir

Vegagerðin varar við illfærum vegum í dag vegna veðurs. Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast vel með áður en lagt er af stað í ferðalag.

Hellisheiði, Þrengslin og Mosfellsheiði eru á óvissustigi á milli klukkan tíu og tvö í dag og geta lokast með stuttum fyrirvara.

Víða um land er flughált, snjóþekja og hálkublettir. Dynjandisheiði er ófær en stefnt er að því að opna hana í dag en búast má við að hún loki aftur síðar í dag.

Vegurinn um Víkurskarð er lokaður. Ófært er á Hófaskarði, Sandvíkurheiði og Hólasandi og þungfært er á Fljótsheiði. Vegurinn á Fjarðarheiði hefur verið opnaður en þar er þæfingar.

Vegurinn um EystraVatnsskarð er ófær og vegurinn um Lyngdalsheiði er á óvissustigi og getur lokað með stuttum fyrirvara milli tíu og tvö í dag.

Þungfært er í Ísafjarðardjúpi og ófært á Steingrímsfjarðarheiði.